Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Frakkar sigursælir í einstaklingskeppni á Evrópumeistaramóti unglinga

Úrslit liggja nú fyrir á í einstaklingsgreinum á Evrópumeistaramóti unglinga í borðtennis. Fyrir þá sem hafa fylgst með evrópskum unglingum undanfarin ár hljóma mörg nöfn sigurvegaranna kunnuglega og hafa þau sum hver unnið marga Evrópumeistaratitla. Sérstaka athygli vekur góður árangur franskra sveina og drengja, sem sópuðu til sín verðlaunum. Allir verðlaunahafar í einliðaleik drengja 16-18 ára voru frá Frakklandi, eins og í fyrra. 

Rúmensku og þýsku stúlkurnar voru sterkar, en þær rússnesku, sem sigruðu tvöfalt í liðakeppni á heimavelli í fyrra, máttu fara heim án titils.  Bernadette Szocs frá Rúmeníu varð þrefaldur Evrópumeistari annað árið í röð.


Í flokki sveina 15 ára og yngri vann Alexandre Cassin frá Frakklandi sinn annan meistaratitil eftir 4-2 sigur á  Patryk Zatowka frá Póllandi.

Í meyjaflokki 15 ára og yngri varð hin þýska Alena Lemmer Evrópumeistari, eftir öruggan 4-0 sigur á Marie Migot frá Frakklandi. Alena var líka í sigurliði Þjóðverja í liðakeppninni.

Í einliðaleik drengja 16-18 ára sigraði Tristan Flore frá Frakklandi samlanda sinn Simon Gauzy 4-3 (11-9 í oddalotu) í úrslitaleiknum en þeir voru báðir í sigurliðinu í liðakeppni. Tristan varði þar með titilinn sem hann vann í fyrra. Þeim brást hins vegar bogalistin í tvíliðaleik þar sem léku saman en töpuðu í úrslitum fyrir pólsku pari, Konrad Kulpa og Jakup Dyjas.
Í stúlknaflokki lagði Bernadette Szocs frá Rúmeníu Petrissa Solja frá Þýskalandi 4-0 í úrslitum en þær mættust einnig í úrslitum í fyrra með sömu niðurstöðu.  Þær léku svo saman í tvíliðaleik og sigruðu og vörðu þar með titilinn sinn frá 2011. Bernadette Szocs varð því þrefaldur Evrópumeistari þetta árið eins og í fyrra. Petrissa Solja fékk tvö gull, því hún varð einnig Evrópumeistari í tvenndarkeppni.

Svíarnir Anton Kallberg og Simon Berglund sigruðu í tvíliðaleik sveina 15 ára og yngri, og varð það eini Evróputitill Norðurlandaþjóðanna á mótinu. Þá hrepptu Svíarnir Hampus Söderlund og Viktor Görman brons í tvíliðaleik drengja 16-18 ára.


ÁMU


Bernadette Szocs frá Rúmeníu varð þrefaldur Evrópumeistari annað árið í röð (Mynd: ETTU)

Aðrar fréttir