Fréttir frá þjálfurum í Riga
Þjálfararnir með íslenska unglingalandsliðinu í Riga sendu fréttir af hópnum í eftirfarandi kveðju:
„Nú er öðrum og þriðja keppnisdegi lokið hér í Riga og þar með hefur íslenska liðið lokið keppni. Á laugardaginn var keppt í cadet-flokki þar sem allir leikmenn Íslands tóku þátt. Í dag, sunnudag, var keppt í junior-flokki þar sem Eirikur Logi, Berglind, Agnes, Alexía og Sól voru fulltrúar Íslands. Báða daga var keppt í riðlum þar sem spilaður var útsláttur upp- og niður úr riðlunum. Þegar einn leikur hafði tapast í útsláttarkeppninni var keppni lokið. Allir leikmenn stóðu sig vel og sýndu undirrituðum hvers vegna þeir höfðu verið valdir í ferðina fyrir hönd Íslands. Framkoma, fas og keppnisandi leikmannanna var til fyrirmyndar, mótið gekk vel fyrir sig og leikmenn hlýddu þjálfurum sínum í hvívetna.
Borðtennis hefur átt flestallar stundir leikmanna og foreldra frá því snemma að morgni fram að háttatíma enda eru dagarnir hér langir. Ekki gefst mikill tími til annars en að borða morgunmat og kvöldmat fyrir- og eftir keppni, ef þá einu sinni það. Þó gafst eldri leikmönnunum tími til að rölta um miðbæ Riga í fylgd foreldra á föstudaginn þegar þeir yngstu voru að keppa. Yngri hluti hópsins heimsótti svo dýragarðinn i borginni fyrir hádegi í dag. Í hádeginu skildust leiðir, yngri helmingur hópsins flaug heim á leið (enda myndu þau alls ekki vilja missa dag úr skólanum) og eldri helmingurinn og þjálfarar fara heim á morgun. Kvöldið fer í að slaka á, teygja og hafa það kósý þar sem allir eru úrvinda, bæði keppendur, foreldrar og ekki síður þjálfarar.
Umgjörð mótsins er með besta móti. Hér er fjöldi þjóða, allt frá Indlandi og Úsbekistan til Ítalíu og Englands og a.m.k. 11 í viðbót þar á milli. Leikmenn eru á mjög mismunandi getustigum en góður andi er á mótinu. Við erum í fullu fæði frá mótshöldurum sem sjá okkur einnig fyrir hóteli og fari til of frá flugvellinum. Bein útsending hefur verið frá nokkrum borðum yfir allt mótið og í dag var sett upp stúdíó þar sem sýnt var beint frá leikjum í junior flokki með lýsendum og nokkrum myndavélum. Þó hefur ekki gefist tími til að hafa upp á útsendingunni þar sem nóg er um að vera hér og netsambandið slæmt í ofanálag. Mótshaldarar hafa reynst okkur hinir hjálplegustu og eru þeim gerðar sérstakar þakkir.
Allir keppendur hafa fengið að upplifa bæði gott of slæmt gengi hér úti og koma heim með lexíur til að vinna í, hafa fengið að kynnast erlendum leikmönnum, mismunandi spilastílum, eflt tengslin við samlanda sína og kynnst sínum eigin leik betur en áður.
Planið fyrir morgundaginn er að mæta um 9 í morgunmat og eiga rólegan morgunn til hádegis þegar við förum út á flugvöll. Við fljúgum í gegnum Vilnius á leiðinni heim. Í ferðanesti fáum við margar góðar minningar en skiljum í staðinn eftir dagbókarfærslu í gestabók hótelsins.
Við þjálfarar þökkum kærlega fyrir ferðina. Krakkarnir hafa verið til sóma enda hefur ferðin gengið áfallalaust fyrir sig (hingað til 7-9-13). Foreldrarnir sem komu með hafa létt stórlega undir með okkur þjálfurum og létt stemninguna í ferðinni til muna. Takk fyrir okkur,
Jói og Tommi. „