Fundur með afreksstjóra ÍSÍ um afreksstefnu BTÍ
Stjórn Borðtennissambands Íslands hefur upp á síðkastið verið í samtali við Véstein Hafsteinsson, afreksstjóra ÍSÍ, en þar hefur afreksstefna og áætlun til langs tíma helst verið á dagskrá. Vésteinn hefur unnið að því að fá aukið fjármagn til afreksíþrótta og samkvæmt síðustu fjárlögum hefur fjárframlag stjórnvalda til þessa málaflokks verið aukið um 637 milljónir króna (ársframlag fyrir 2025 u.þ.b. tvöfaldað).
Núverandi afreksstefna BTÍ rennur út um áramótin og er kominn tími á að uppfæra hana til næstu fimm ára.
Þann 4. desember sl. var því haldinn fundur í höfuðstöðvum ÍSÍ í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal með Vésteini Hafsteinssyni, afreksstjóra ÍSÍ og Brynju Guðjónsdóttur af afrekssviði og rætt um nýja afreksstefnu BTÍ fyrir tímabilið 2025-2029.
Auk stjórnar BTÍ var lykilfólki innan hreyfingarinnar boðið til fundarins, s.s. þjálfurum, toppleikmönnum, foreldrum og formönnum deilda.
Dagskrá stefnumarkandi fundar um afreksstefnu BTÍ
17:05-17:15 Auður Tinna Aðalbjarnardóttir kynnir stöðu mála og dagskrá fundar
17:15-17:20 Vésteinn Hafsteinsson með innlegg um ÍSÍ og afrekssjóð
17:20-17:30 Kári Mímisson kynnir hugmyndir að framtíðarskrefum fyrir BTÍ
17:30-17:40 Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson kynnir spennandi samstarfsverkefni BH og Ningbo í Kína
17:40-18:00 Kaffihlé
18:00 Fimm umræðuliðir
1. Útbreiðsla
2. Aðstöðumál
3. Æfingaskipulag landsliðanna
4. Landsliðsþjálfaramál
5. Afreksmanneskja í borðtennis: Hvað þarf til að búa til afreksfólk í borðtennis?
19:40-20:00 Samantekt og næstu skref
20:00 Fundi slitið
Umræður voru mjög uppbyggilegar og Vésteinn tók saman helstu punkta um veginn fram á við í lok fundar.
Forsíðumynd af Vésteini frá Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur.