Fyrsti borðtennisveturinn afstaðinn hjá UMF Neista á Djúpavogi
Um áramótin fékk Borðtennissambandið veður af því að vikulegar borðtennisæfingar væru hafnar hjá UMF Neista á Djúpavogi. Eftir samskipti í vor við Ágústu Margréti Arnardóttur framkvæmdastjóra, Rúnar Sigríksson nýráðinn þjálfara félagsins og William Óðinn Lefever er nú hægt að fjalla um starfið.
William Óðinn hafði eftirfarandi að segja:
„Þrátt fyrir að á Djúpavogi hafi ekki verið stundaðar skipulagðar æfingar í borðtennis um árabil hefur áhuginn á borðtennis þó blundað í fólki hér um langt árabil. Áhuginn hefur dvalið á einum besta griðastað íþróttarinnar – í félagsmiðstöðinni. Sjálfur er ég forstöðumaður félagsmiðstöðvarnar Zion á Djúpavogi og þar hefur íþróttin blómstrað, þó með óformlegum hætti, um langt skeið.
Sem stjórnarmaður í stjórn umf. Neista á Djúpavogi þá stökk ég til 2023 og setti í gang æfingar í Borðtennis eftir að félagið missti frá sér þjálfara. Við brotthvarf þjálfarans var gripið til þeirra ráða að kalla eftir hjálp bæjarbúa við að þjálfa með skipulögðum hætti svo fólk og sérstaklega unga fólkið yrði ekki hlunnfarið öllu íþróttastarfi. Bæjarbúar svöruðu sannarlega kallinu og okkur tókst að setja saman fjölbreytta töflu sem bauð upp á margt nýtt sem hafði ekki verið í boði lengi m.a. borðtennis og badminton.
Ég lagði mitt af mörkum og við fluttum borðin frá félagsmiðstöð og upp í íþróttahús þar þau hafa staðið síðan. Æft er einu sinni í viku og áhuginn er ekki síðri hjá Neista en hann var í Zion! Um það bil 10 krakkar á aldrinum 6 -12 ára mæta á æfingar og njóta þess að spila borðtennis saman. Ég reyni eftir bestu getu að kenna grunnatriðin enda sjálflærður eftir tæp 20 ár af félagsmiðstöðva harki en börn læra hratt og fljótlega mun ég sennilega þurfa að læra af þeim!
Nú hefur okkur tekist að ráða Rúnar Sigríksson í stöðu þjálfara hér á Djúpavogi. Það er mín einlæga ósk að undir hans forystu og fagmennsku náum við að viðhalda þessu góða starfi og færa það í hendur fagfólks í greininni. Unga fólkið á það svo sannarlega skilið.“
Rúnar Sigríksson sagði eftirfarandi um starfið:
„Eins og staðan er í dag þá höfum við yfir þremur borðum að ráða og ef mun ég reyna að bæta þremur borðum við fyrir næsta haust.
Ég hef leyst af sl. tvo fimmtudaga og mun sennilega stýra þessu næsta vetur enda gamall í hettunni þegar borðtennis er annars vegar.
Ég sat þjálfaranámskeið hjá Borðtennissambandi Íslands 1980 eða 1981 eða þegar ég var 14/15 ára. Ég ólst upp á Akranesi en þar voru margir mjög flínkir leikmenn að æfa reglulega m.a. fyrrum íslandsmeistarar í borðtennis.
Ég lék mikið borðtennis í gamla daga í bílskúrum vítt og breytt um bæinn, félagsmiðstöðinni á Akranesi, í KFUM og svo sótti ég æfingar með þessum gömlu. Það var að þeirra frumkvæði að ég var sendur á fyrrnefnt þjálfaranámskeið enda var ég farinn að rúlla þeim öllum upp nokkuð auðveldlega. Ég tók þátt í einu móti, sem var haldið í Heiðarskóla í Mela- og Leirársveit, þá 14 ára gamall og sigraði unglingalandsliðsmann í úrslitaleik í einliða. Sem Skagamaður þá valdi ég fótboltann en hætti þar rúmlega 22 ára gamall. Borðtennis hef ég ekki spilað í mörg ár en grunngetan er enn til staðar.“
Þá sagði Rúnar: „Í sumar þá mun ég bjóða upp á borðtennis allan júní og eitthvað fram í júlí. Borðtennis mun svo án efa fá meira pláss næsta haust og vetur og vonandi náum við að skapa aukna stemningu, lyfta upp og getustiginu og fá fleirri börn og unglinga til þess að stunda þessa skemmtilegu íþrótt.“
Borðtennissambandið býður meðlimi UMF Neista hjartanlega velkomna í hreyfinguna og er hæstánægt með að þriðja unga félagið með vikulegar æfingar hafi bæst við á Austurlandi. Við vonumst eftir góðu samstarfi á komandi misserum.
Hér fyrir neðan eru myndir frá æfingum Neistans.