Góður andi á aldursflokkamóti BH
Ungir iðkendur voru áberandi á aldursflokkamótinu sem fram fór á Strandgötunni í Hafnarfirði á laugardaginn sem leið. Þátttaka var góð, 64 keppendur úr sjö félögum. Keppt var í tveimur flokkum, cadet-flokki (15 ára og yngri) og U21-flokki. Leikfyrirkomulag mótsins var sniðið að aðstæðum þannig að allir leikmenn gætu spilað sex leiki á mann, og þá alla við aðra leikmenn á sama styrkleikastigi og þeir sjálfir.
Á mótinu keppti stór hluti keppenda á sínu fyrsta borðtennismóti og miðað við drengilega keppni og prúða framkomu þessara byrjenda í íþróttinni má vænta bjartrar framtíðar í borðtennisíþróttinni. Keppnin var löng því leiknir voru 188 leikir á mótinu en þó gekk mótið áfallalaust fyrir sig og í cadet-flokknum hlutu allir keppendur verðlaun fyrir góðan árangur á mótinu.
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér úrslit mótsins, sem hefur hlotið nafnið Smassmótið mikla 2021, eða vilja yfirfara sín úrslit geta gert það með því að smella á þannan hlekk.