Grein um búninga breytt í keppnisreglum
Stjórn BTÍ hefur samþykkt tillögu mótanefndar um breytingu á 16. gr. keppnisreglna BTÍ. Markmið með breytingunni er að skerpa á reglunni um keppnisbúninga með áherslu á að lið mæti í samstæðum keppnistreyjum á Íslandsmóti og í deildakeppni. Það er ljóður á yfirbragði sumra móta að sjá lið mæta í ósamstæðum búningum enda á það ekki að þekkjast á helstu mótum okkar. Þessi breyting er liður í að styrkja ímynd íþróttarinnar og stuðla að enn meiri fagmennsku í keppni í borðtennis. Það skal áréttað að reglunni verður fylgt eftir. Lið fá viðvörun í fyrsta sinn en ef lið koma í ósamstæðum keppnisbúningum í næsta sinn fá lið sekt og þurfa að greiða hana til að fá leyfi til að keppa í næsta leik.
Grein 16. hljóðar svona eftir breytingu:
Á Íslandsmótum og í deildarkeppni skulu keppendur klæðast búningi síns félags. Lið í deildarkeppninni skulu jafnframt leika í sams konar keppnistreyjum. Sé þessu ekki sinnt í efstu deild sendir mótanefnd BTÍ viðkomandi félagi viðvörun þess efnis. Ef sama lið mætir aftur í ósamstæðum treyjum fær félagið 20.000 kr sekt og er ekki heimilt að leika næsta deildarleik fyrr en sekt hefur verð greidd.
Einungis má keppa í stuttbuxum (eða pilsi) en gefa má undanþágu til þess að keppa í síðum íþróttabuxum. Keppt skal í stutterma bolum og skór skulu vera íþróttaskór með gúmmísólum eða fimleikaskór. Keppandi skal vera tilbúinn til leiks þegar að honum kemur og í síðasta lagi 5 mínútum síðar, annars getur andstæðingur krafist vinnings án leiks.
Mynd með frétt af liði BR. Liðið er til sóma fyrir að mæta ávallt í samstæðum keppnisbúningum frá stofnun félagsins.