Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Guðbjörg Vala sigraði í stúlknaflokki C í Hasselt

Úrslit á International Youth Cup 2024 mótinu í Hasselt í Belgíu, hafa verið birt á vef félagsins. Hópur íslenskra unglinga lék á þessu móti, sem fram fór 18.-20. maí.

Á mótinu var bæði leikið í liðakeppni og einliðaleik og skipt í flokka A til E eftir fæðingarári keppenda. Í sumum aldursflokkum var bæði keppt í „elite“ flokki og í venjulegum flokki.
Fyrst var keppt í riðlum og svo fóru allir leikmennirnir í útsláttarkeppni. Fjöldi í flokki var misjafn, frá um 15 keppendum upp í á fimmta tug.

Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir sigraði í flokki Girls-C og Helena Árnadóttir varð í 3.-4. sæti. Alls voru 15 leikmenn samtals í flokkum Girls-C og Girls-C elite. Þær Guðbjörg og Helena höfnuðu í 2. sæti í liðakeppni í flokki Girls-C á eftir þýska liðinu Holstein Quickborn en í 3. sæti varð annað þýskt lið, Erdmannhausen. Þær voru einu íslensku leikmennirnir sem komust á verðlaunapall.

Lið Íslands í flokki Boys-B varð í 4. sæti af 10 liðum, og íslenska liðið í flokki Boys-C elite hafnaði í 8. sæti af 17 liðum. Siðastnefnda liðið átti að spila um 6. sæti en þurfti að gefa þann leik til að ná fluginu heim (sjá mynd af liðinu efst á síðunni).

Í einliðaleik drengja komust tveir leikmenn í 8 manna úrslit. Það voru þeir Eiríkur Logi Gunnarsson í flokki Boys-A og Darian Adam Róbertsson Kinghorn í flokki Boys-B.
Benedikt Aron Jóhannsson varð í 9.-16. sæti í flokki Boys-B elite.
Þeir Alexander Chavdar Ivanov (Boys-B elite), Benedikt Jiyao Davíðsson (Boys-D elite),
Heiðar Leó Sölvason, (Boys-C), Kristján Ágúst Ármann, (BH Boys-C elite) og Lúkas André Ólason (Boys-D elite) höfnuðu í 17. sæti eða neðar í sínum flokki.

Slóð á úrslitin á mótinu: https://ttchasselt.be/international-youth-cup-results-2024/

Forsíðumynd af Guðbjörgu Völu úr myndasafni og mynd af liðinu í Boys-C elite frá Ingimar Ingimarssyni.

Aðrar fréttir