Guðmundur Stephensen leikur í úrslitum hollensku deildarinnar í dag
Enjoy&Deploy Zoetermeer, lið Guðmundar Stephensen, leikur í dag til úrslita í hollensku 1. deildinni í borðtennis gegn Wijzenbeek Westa. Liðið komst í úrslit þrátt fyrir 3-4 tap í seinni undanúrslitaleiknum gegn Scyedam þann 5. maí. Enjoy&Deploy vann fyrri leikinn 5-2 og kemst því í úrslit með betri samanlögð úrslit úr leikjunum tveimur.
Í hollensku deildinni er bæði keppt til úrslita á haustin og á vorin. Ef haustmeistarnir vinna líka á vorin er keppni lokið, en annars leika þessi tvö meistaralið úrslitaleik.
Guðmundur var lykilmaður í að koma liði sínu í úrslit, því hann vann alla sína leiki í undanúrslitaleiknum. Hann lagði Rajko Gommers 3-1 og Michel de Boer 3-1 í einliðaleikjunum tveimur. Í tvíliðaleik lék Guðmundur með Boris de Vries og unnu þeir Gommers og de Boer 14-12 í oddalotu.
ÁMU