Hu Dao Ben fyrrverandi landsliðsþjálfari látinn 72 ára að aldri
Hu Dao Ben, borðtennismaður, þjálfari og landsliðsþjálfari lést þann 14. apríl síðastliðinn, 72 ára að aldri.
Hu var á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar í kínverska karlalandsliðinu og varð hann tvisvar sinnum heimsmeistari með liði Kínverja í liðakeppni. Komst hann hæst í áttunda sæti á styrkleikalista alþjóða borðtennissambandsins. Hann kom fyrst til Íslands árið 1989 45 ára að aldri en hann hafði áður eftir að hann hafði sjálfur lagt spaðann á hilluna verið í þjálfarateymi kínverska landsliðsins, svæðisþjálfari í Peking og einnig þjálfari á Ítalíu og Kýpur. Var hann frá 1989 til 1990 þjálfari hjá Stjörnunni í Garðabæ og var þjálfari hjá Víkingum frá 1990. Var hann fyrst valinn landsliðsþjálfari árið 1990 og fór hann þá með liðinu á Smáþjóðaleikana í ágúst til Luxemborg og árið eftir fór hann með landsliðinu á heimsmeistaramótið í Japan. Frá þeim tíma hefur hann snert líf og borðtennisferil mikils fjölda íslenskra iðkenda á öllum aldri, bæði sem þjálfari hjá Víkingum og sem unglingalandsliðs- og landsliðsþjálfari. Var hann meðal annars þjálfari landsliðsins í fjölmörgum landskeppnum við Færeyinga og Evrópumótum m.a. í í undankeppni EM í Aþenu í Grikklandi 1991, Stuttgart í Þýskalandi 1991, Birmingham 1994 og í eftirminnilegum sigri íslenska landsliðsins undir 16 ára við unglingalandslið Svía í mars 1994. Þá var hann þjálfari liðsins í riðlakeppni Evrpópumótsins í Luxemborg 1999 og Wales 2001 og Evrópumótinu í Bremen Þýskalandi árið 2000 og Ítalíu 2003. Einnig var hann þjálfari landsliðsins á heimsmeistaramótinu í Manchester í Englandi 1997, Malasíu árið 2000, Japan árið 2001 og París 2003. Bestum árangri í liðakeppni EM og HM hefur íslenskt landslið náð undir handleiðslu Hu Dao Ben. Braut hann ásamt leikmönnum íslenska landsliðsins blað á Smáþjóðaleikunum í Luxemborg 1999 þegar íslenska karlaliðið endaði í 2. sæti leikanna. Einnig fór hann með liðinu á Smaþjóðaleikana í San Marinó árið 2001. Var hann þjálfari liðsins á Norður Evrópumótinu í Litháen 2002.
Hu var þjálfari Víkinga í fjölmörgum keppnum í liðakeppni bikarhafa m.a. við lið Waldegg Linz frá Austurríki 1992, lið Hapoel Ramat-Gan frá Ísrael 1995 og lið Bordeaux frá Frakklandi 1999.
Auk ofangreinds var hann einnig leiðbeinandi í borðtennis t.d. í Suðurhlíðarskóla og fór með ungt lið Víkinga í eftirminnilega æfinga- og keppnisferð árið 1993 til Kína.
Hu hafði á farsælum ferli sínum verið sæmdur gullmerki BTÍ og heiðursmerki BTÍ árið 2016 auk þess sem Borðtennisdeild Víkinga hafði margsinnis heiðrað hann með viðurkenningum.
Borðtennisfólk á Íslandi vottar fjölskyldu og aðstandendum Hu samúð sína. Fallinn er frá mikilsmetinn maður og afburðar þjálfari sem setti mark sitt á íslenskan borðtennis og verður hans ávallt minnst með hlýhug.
Hér að neðan er að finna nokkrar myndir af Hu sem birst hafa í blaðafréttum, sú elsta er frá árinu 1990 en sú yngsta frá árinu 2003.
Hér er svo hlekkur á samantekt frétta af Hu í gegnum tíðina sem stjórn BTÍ hefur tekið saman fyrir þá sem vilja kynna sér feril hans hér á Íslandi betur.
II
Hu árið 1990 með Guðmundi Stephensen
Hu Dao Ben með íslenska landsliðshópum á Evrópumótinu Í Stuttgart 1992
Hu Dao Ben með ungum leikmönnum Víkinga sem fór í æfinga- og keppnisferð til Kína 1993
Hu með A landsliði Íslands 1993 – Landskeppni við Færeyinga
Hu með yngsta landslið Íslands frá upphafi á leið á Evrópumótið í Bermingham Englandi 1994
Hu með A karlalandsliði Íslands sem fór á HM í Kuala Lumpur Malasíu árið 2000
Hu með A karlalandsliði Íslands í forkeppni Evrópumóts karla árið 2000
Hu með sigurliði Víkinga í 1. deild karla 2001
Hu með sigurliði Víkinga í 1. deild karla 2001
Hu með íslenska A karlalandsliðinu á HM í Osaka Japan 2001. Frammistaða þar framar vonum
Hu með íslenska liðinu sem keppti á Smáþjóðaleikunum árið 2001
Hu með Íslandsmeisturum í 1. deild karla 2002
Hu með íslenska landsliðshópnum sem keppti á Heimsmeistaramótinu í París árið 2003