Ingi Darvis og Sól borðtennisfólk ársins 2024
Ingi Darvis Rodriguez, Víkingi, og Sól Kristínardóttir Mixa, BH voru kjörin borðtennisfólk ársins í kjöri, sem lauk 19. desember og fór fram skv. reglugerð um kjör borðtennisfólks ársins. Þetta er í fyrsta skipti sem Sól er kjörin en Ingi Darvis hefur áður verið borðtennismaður ársins, bæði árin 2020 og 2021.
Borðtenniskarl ársins: Ingi Darvis Rodriguez
Ingi er 22 ára og fékk alslemmu í íslenskum borðtennis í ár þegar hann vann alla fjóra Íslandsmeistaratitlana í meistaraflokki. Var það í annað sinn sem hann varð Íslandsmeistari karla í einliðaleik. Ingi býr í Halmstad í Svíþjóð til að leggja stund á borðtennis og var lykilleikmaður í deildarmeistaratitli liðs síns Horreds BTK og því að liðið komst upp í næst efstu deild Svíþjóðar í vor. Ingi var leikjahæsti leikmaður karlalandsliðsins á árinu og tók m.a. þátt á Norður-Evrópumótinu í Riga og lenti í 28. sæti á sterka opna mótinu Finlandia Open. Ingi er fyrirmynd ungra íslenskra borðtennismanna og er á mikilli uppleið.
Borðtenniskona ársins: Sól Kristínardóttir Mixa
Sól varð Íslandsmeistari kvenna í vor aðeins 18 ára að aldri eftir að hafa hlotið silfrið næstu tvö árin á undan. Hún var jafnframt lykilleikmaður BH í sigri kvennaliðs þeirra sem deildarmeistar í efstu deild kvenna 2023-2024. Í haust hóf Sól í fyrsta sinn keppni í sænsku deildinni þar sem hún keppir fyrir Åstorps BTK með ágætum. Með landsliðinu var helsti árangur Sólar 2024 í tvenndarleik á EM unglinga í Malmö og sigur í kvennaflokki á OB Stævne í Óðinsvéum. Sól er frábær fulltrúi íslensks kvennaborðtenniss og á framtíðina fyrir sér.