Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Ingi Darvis sigraði í flokki eldri ungmenna á Mega Cup

Ingi Darvis Rodriguez sigraði í flokki eldri ungmenna (Herrer eldre junior) á Mega Cup, sem fram fer í Osló um helgina.
Fleiri Íslendingar voru á verðlaunapalli því Magnús Gauti Úlfarsson varð í 3.-4. sæti í sama flokki. Hann varð svo í 2. sæti í flokki Herrer elite, en þar varð Magnús Jóhann Hjartarson í 3.-4. sæti eftir tap fyrir nafna sínum í undanúrslitum.
Sól Kristínardóttir Mixa varð í 2. sæti í flokki Damer elite.

Úrslit íslensku leikmanna á fyrri degi mótsins, 20. maí, voru þessi:

Ingi Darvis sigraði í flokki Herrer eldre junior, eins og fram kom hér að ofan og vann alla leiki sína í flokknum. Hann vann Matias Larsen úr B-72 klúbbnum í Noregi í úrslitaleiknum. Magnús Gauti varð í 3.-4. sæti. Gestur Gunnarsson vann leik í riðlinum en komst ekki áfram í útsláttarkeppnina. Í þessum flokki leika þeir sem eru fæddir 1999 og síðar.

Magnús Gauti Úlfarsson vann sinn riðil í flokki Herrer elite og hafnaði í 2. sæti í flokknum. Hann tapaði í úrslitum fyrir Matias Larsen úr B-72 klúbbnum í Noregi, þeim sama og Ingi vann í úrslitum í eldri ungmennaflokki. Í undanúrslitum mættust Magnús Gauti og Magnús Jóhann, og hafði Magnús Gauti betur. Magnús Jóhann varð því í 3.-4. sæti í þessum flokki. Gestur vann ekki leik í sínum riðli og það gerði Sól ekki heldur. Ingi Darvis var skráður til leiks í flokknum en dró sig úr keppni.

Sól Kristínardóttir Mixa varð í 4. sæti í flokki Damer eldre junior. Sex leikmenn voru í flokknum og keppt í einum riðli. Sól vann tvo leiki af fimm, en þrír leikmenn fengu jafnmarga vinninga í 3.-5. sæti. Hún lék líka í flokki Damer elite, en þar voru aðeins tveir leikmenn. Sól tapaði úrslitaleiknum fyrir Martine Toftaker úr B-72 og varð í 2. sæti.

Í flokki Åben moro er leikin ein lota upp í 21. Magnús Jóhann og Magnús Gauti urðu í 5.-8. sæti í þessum flokki en Gestur tapaði í 16 manna úrslitum og varð því í 9.-16. sæti. Ingi Darvis dró sig úr keppni í flokknum.

Hér má sjá úrslit úr öllum leikjum á mótinu: http://resultat.ondata.se/000976/

Forsíðumynd af Inga Darvis frá Íslandsmótinu 2023 af fésbókarsíðu BTÍ.

Aðrar fréttir