Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Ingi Darvis varð í 28. sæti á Finlandia Open

Sex íslenskir leikmenn hafa leikið á Finlandia Open í Helsinki 5.-7. desember. Leikið er með útsláttarfyrirkomulagi en spilað um hvert sæti, svo hver leikmaður fær marga leiki. Þá skiptir miklu máli upp á lokaröðun í mótinu að vinna leiki sem fyrst í mótinu, þar sem hver sigur getur fært leikmann upp um fjölda sæta.

Ingi Darvis Rodriguez náði bestum árangri íslensku leikmannanna, en hann varð í 28. sæti. Allir íslensku leikmennirnir unnu leik á mótinu.

Úrslitin á mótinu ráðast 8. desember en allir íslensku leikmennirnir luku keppni laugardaginn 7. desember.

Ingi Darvis Rodriguez lék fyrst í 3. umferð en tapaði þar fyrir Rokas Kisielius frá Litháen. Tapmegin í töflunni vann hann Vazir Allaverdiyev frá Azerbaídjan og Frederico Giardi frá San Marínó og var þar með kominn í leiki um sæti 48 og ofar. Næst vann hann Jochem De Hoop frá Hollandi en tapaði fyrir Martin Fröseth frá Noregi og var þá kominn í keppni um sæti 25-32. Hann sigraði svo Toni Soine frá Finnlandi og en tapaði fyrir Callum Evans frá Wales og tapaði loks fyrir Dennis Larsson frá Svíþjóð í leik um 27. sæti og hafnaði í 28. sæti.

Magnús Gauti Úlfarsson lék fyrst í 2. umferð þar sem hann lagði Tarek Al-Samhoury frá Austurríki en tapaði því næst fyrir Christian Hold frá Danmörku. Þá var hann kominn á taphlið töflunnar, þar sem hann tapaði fyrir Madis Moos frá Eistlandi. Í leikjum um sæti 33-48 tapaði hann gegn Miikka O’Connor frá Írlandi og fyrir Mathias Ojala frá Finnlandi. Hann vann svo Luca Elsen frá Lúxemborg í leik um 39. sæti og lauk keppni í því sæti.

Matthias Þór Sandholt vann Poul Jörgen Petersen frá Grænlandi í 1. umferð en tapaði í 2. umferð fyrir Alexander Fransson frá Noregi. Tapmegin í töflunni vann hann Toby Harwood frá Wales en tapaði fyrir Madis Moos frá Eistlandi og var þá komin í leiki um sæti 49-64. Hann tapaði næst fyrir Arjan Huiden frá Hollandi og keppti þá um sæti 57-64. Þar vann hann Ilmar Vuhka frá Eistlandi og Samuli Soine frá Finnlandi. Loks lék Matthias um sæti 57 við Helmer Vidén frá Svíþjóð en tapaði, og varð því í 58. sæti.

Birgir Ívarsson tapaði í 1. umferð fyrir Dennis Larsson frá Svíþjóð. Á taphliðinni í töflunni tapaði hann fyrir Arttu Pihkala frá Finnlandi. Hann lék um sæti 65-96 og lagði Adam Faulkner frá Írlandi en tapaði fyrir Sebastian Flaatten frá Noregi. Þá var hann kominn í keppni um sæti 67-82 þar sem hann tapaði fyrir Lauri Hakaste frá Finnlandi en vann Joseph Marlor frá Englandi í lokaleiknum um 71. sæti og lauk því keppni í 71. sæti.

Þorbergur Freyr Pálmarsson tapaði í 1. umferð fyrir Maël Van Dessel frá Lúxemborg og næst fyrir Ilmar Vuhka frá Eistlandi tapmegin í töflunni. Hann lék um sæti 65-96 þar sem hann vann Rune Schultz frá Grænlandi en tapaði fyrir Joseph Marlor frá Englandi. Þá var hann kominn í keppni um sæti 67-82 þar sem hann tapaði fyrir Lauri Laane frá Eistlandi og Rhori Rowan frá Skotlandi og lauk keppni í 79. sæti.

Magnús Jóhann Hjartarson tapaði í 1. umferð fyrir Nihad Mammadov frá Azerbaídjan. Tapmegin í töflunni tapaði hann fyrir Toni Soine frá Finnlandi. Hann lék um sæti 65-96 þar sem hann tapaði fyrir Mathias Halvorsen frá Noregi, Mathias Vesalainen frá Finnlandi og Adil Ahmadzada frá Azerbaídjan. Loks vann Magnús góðkunningja Íslendinga, Aqqalu Nielsen frá Grænlandi, og lauk keppni í 93. sæti.

Þá má geta þess að Alexander Fransson frá Noregi, sem hefur leikið fyrir Víking í 1. deild karla er kominn í 8 manna úrslit í einliðaleik karla og hann varð í 2. sæti í undir 21 árs einliðaleik.

Forsíðumynd af hópnum frá Peter Nilsson, landsliðsþjálfara.

Aðrar fréttir