Ingi Darvis varð í 5.-8. sæti í einliðaleik á Smáþjóðaleikunum
Annar keppnisdagur í borðtenniskeppni Smáþjóðaleikanna var 28. maí en þá var keppt í einliðaleik karla og kvenna.
Ingi Darvis Rodriguez náði lengst íslensku keppendanna en hann varð í 5.-8. sæti í einliðaleik karla. Hann lagði Lorenzo Ragni frá San Marínó 3-0 og Obed Asenio frá Andorra 3-2 en tapaði 0-3 fyrir Luca Mladenovic frá Lúxemborg. Ingi varð í 2. sæti í riðlinum og komst því áfram í 8 manna úrslit.
Þar mætti Ingi Felix Wetzel frá Möltu og tapaði 0-3 og 5.-8. sæti varð niðurstaðan. Felix varð svo í 2. sæti eftir 2-3 tap í úrslitaleik gegn Luca Mladenovic frá Lúxemborg sem sigraði. Ingi Darvis tapaði því fyrir þeim tveimur keppendum sem léku úrslitaleikinn.
Magnús Gauti Úlfarsson sigraði Martin Tiso frá Mónakó 3-0 en tapaði 0-3 fyrir Maël van Dessel frá Lúxemborg og Marios Yangou frá Kýpur. Hann lauk því keppni í 3. sæti í riðlinum og komst ekki áfram.
Í einliðaleik kvenna sigraði Nevena Tasic Ulriku Quist frá Mónakó 3-2 en tapaði 1-3 fyrir Georgiu Avram frá Kýpur og 2-3 fyrir Anastasiju Vujovic frá Montenegro. Hún varð því í 3. sæti af fjórum keppendum í sínum riðli og komst ekki áfram.
Aldís Rún Lárusdóttir var í þriggja manna riðli og tapaði 0-3 fyrir Enisu Sadikovic frá Lúxemborg og Chiöru Morri frá San Marínó.
Sigurvegari í kvennaflokki varð Sarah De Nutte frá Lúxemborg, sem lagði Mariu-Carmeliu Iacob frá Möltu 3-2 í úrslitum.
Forsíðumynd af Inga Darvis tekin af heimasíðu leikanna.