Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Ísland-I sigraði Finnland-II í drengjaflokki á Norður-Evrópumótinu í borðtennis

Ísland-I í drengjaflokki (16-18 ára) sigraði Finnland-II 3-2 á Norður-Evrópumótinu í borðtennis, sem hófst í Haapsalu í Eistlandi í dag, 26. júní. Þennan fyrsta dag var leikið í riðlum í liðakeppni, og var þetta eini landsleikurinn sem vannst þennan dag. Magnús Gauti Úlfarsson og Ingi Darvis Rodriquez unnu báðir sama leikmanninn en töpuðu fyrir öðrum leikmanni Finnanna. Þriðji leikmaður Finna var meiddur, svo Ellert Kristján Georgsson fékk ekki að spreyta sig gegn honum. Ísland-I í drengjaflokki tapaði einnig 1-3 gegn Litháen og aftur var það Ellert sem fékk gefins leik en hinir leikmennirnir töpuðu sínum leikjum.

Ísland-I í drengjaflokki vann lotur í fleiri leikjum sínum en í sigrinum gegn Finnlandi-II en í öðrum flokkum vannst aðeins ein lota þennan fyrsta dag. Það var Ísland-II í sveinaflokki (Arnar Logi Viðarsson og Trausti Freyr Sigurðsson) sem unnu lotu í tvíliðaleik gegn Finnlandi-I 11-4. Í nokkrum öðrum leikjum töpuðust lotur með tveggja stiga mun.

Þann 27. júní verður leikið til úrslita í liðakeppni fyrir hádegi og hefst keppni kl. 9 að staðartíma. Úrslitin og síðustu leikirnir um sæti verða kl. 11.15.

Íslensku liðin munu leika um 5.-8. sæti í drengjaflokki (16-18 ára), þar sem Ísland-I mætir Eistlandi-II og Ísland-II leikur við Litháen. Sigurliðin mætast í leik um 5. sæti og tapliðin keppa um 7. sæti.

Í meyjaflokki (15 ára og yngri) leikur Ísland-I við Noreg-I og Ísland-II við Lettland í keppni um 5.-8. sæti. Sigurliðin mætast í leik um 5. sæti og tapliðin leika um 7. sæti.

Í sveinaflokki (15 ára og yngri) mætast Ísland-I og Ísland-II í leik um 9. sætið.

Í stúlknaflokki (16-18 ára) var leikið í einum 6 liða riðli, og fara tveir síðustu leikirnir fram 27. júní, þar sem Ísland mætir Eistlandi-II og Eistlandi-I. Klukkan 14 eftir hádegi hefst keppni í einliðaleik.

Ferðalagið til Haapsalu tók sinn toll af leikmönnunum í dag og var greinilega þreyta í liðinu. Rúmir 17 tímar liðu frá því að leikmenn hittust á BSÍ þar til þeir voru komnir inn á herbergi í Haapsalu. Þá voru innan við 7 tímar þar til krakkarnir þurftu að fara á fætur í morgunmat og upphitun fyrir leiki dagsins.

Að loknum kvöldmat og liðsfundum horfðu flestir saman á leik Íslands og Króatíu á HM í knattspyrnu karla, en nokkrir ætluðu að sleppa leiknum og koma sér fyrr í rúmið.

Úrslit úr leikjum í liðakeppni:

Drengir (16-18 ára)

A-riðill

  • Ísland-II- Noregur-II 0-3
  • Ísland-II – Finnland-I 0-3
  • Ísland-II – Eistland-II 0-3

B-riðill

  • Ísland-I – Finnland-II 3-2
  • Ísland-I – Noregur-I 0-3
  • Ísland-I – Eistland-I 0-3
  • Ísland-I – Litháen 1-3

Stúlkur (16-18 ára)

  • Ísland-I – Noregur-I 0-3
  • Ísland-I – Noregur-II 0-3
  • Ísland-I – Finnland 0-3

Sveinar (15 ára og yngri)

A-riðill

  • Ísland-II- Lettland 0-3
  • Ísland-II – Noregur-I 0-3
  • Ísland-II – Finnland-I 0-3
  • Ísland-II – Eistland-II 0-3

B-riðill

  • Ísland-I – Litháen 0-3
  • Ísland-I – Finnland-II 0-3
  • Ísland-I – Eistland-I 0-3
  • Ísland-I – Noregur-II 0-3

Meyjar (15 ára og yngri)

A-riðill

  • Ísland-II – Noregur-I 0-3
  • Ísland-II – Eistland-I 0-3
  • Ísland-I – Litháen 0-3

B-riðill

  • Ísland-I – Eistland-II 0-3
  • Ísland-I – Lettland 0-3
  • Ísland-I – Noregur-II 0-3

Á forsíðumyndinni má sjá Magnús Gauta í leik.

 

ÁMU

Aðrar fréttir