Ísland komið í 12 liða úrslit í 5. deild á HM í Dortmund
Ljósmynd: Sigurður Valur Sverrisson
Íslendingar töpuðu síðari leik sínum í gær gegn liði Togo 3-0 en leikur Adams Harðarssonar gegn Johnson Koudjo fór í oddalotu sem og leikur Davíðs Jónssonar gegn Lawson-Gaizer Fessou. Leikur Magnúsar K Magnússonar var einnig tæpur en Magnús tapaði lotum 2 og 3 10-12 og 9-11.
Í morgun átti íslenska liðið að spila við Nepal en lið Nepal mætti ekki til leiks. Fór leikurinn því 3-0 fyrir Ísland. Þetta þýðir að íslenska liðið endaði í 3 sæti í riðlinum og því komið í 16 manna útsláttarkeppni um sæti í 4. deild. Íslendingar leika á morgun kl. 08.00 að íslenskum tíma við lið Tajikistan sem lenti í 2. sæti í R riðli á eftir Jamaica en þeir unnu í riðli sínum lið Manar, Sierra Leone, Uganda og Palestínu, 3-0, 3-0, 3-0 og 3-1. Vinni Íslendingar þann leik leika þeir næst við lið Mongólíu.
Samkvæmt upplýsingum fréttaritara í Dortmund er andinn í íslenska liðinu góður og allt til fyrirmyndar í skipulagningu mótshaldara.