Ísland sendir drengjalið á EM unglinga í Rúmeníu
Borðtennissamband Íslands hefur ákveðið að senda drengjalið (16-18 ára) á EM unglinga, sem fram fer í Cluj Napoca í Rúmeníu 15.-24. júlí. Liðið skipa þeir Birgir Ívarsson, BH; Ellert Kristján Georgsson, KR; Ingi Darvis Rodriquez, Víkingi og Magnús Gauti Úlfarsson, BH, sem allir hafa leikið áður á mótinu.
Unglingalandsliðsþjálfarinn Kristján Viðar Haraldsson verður með liðinu á mótinu. Hannes Guðrúnarson, alþjóðadómari mun dæma á mótinu, og er þetta í fyrsta skipti sem hann dæmir sem alþjóðadómari erlendis.
Dregið hefur verið í riðla í liðakeppni á mótinu og verður Ísland í G-riðli með Ísrael, Moldóvu og Serbíu. Einnig leika drengirnir í einstaklingskeppni en ekki hefur verið dregið í hana.
Heimasíða mótsins er https://www.ettu.org/en/events/european-youth-championships/general-information/.
Á forsíðumyndinni má sjá Birgi á EM unglinga 2017.
ÁMU