Ísland sigraði Möltu og Skotland á EM unglinga
Íslensku liðin unnu tvo landsleiki á lokadegi liðakeppni á EM unglinga í Ostrava. Drengjaliðið lagði Möltu 3-1 öðru sinni á mótinu og varð þar með í 43. sæti. Meyjaliðið vann Skotland 3-2 og varð í 34. sæti. Þetta var fyrsti sigurleikur meyjaliðsins og einnig fyrstu leikirnir sem þær Agnes og Harriet vinna á mótinu. Það eru mörg ár síðan íslenskar stúlkur unnu síðast landsleik á EM unglinga. Allir leikmenn Íslands á mótinu hafa þar með unnið leik á þessu móti.
Meyjaliðið mætti Skotlandi í leik um sæti 33-36. Agnes byrjaði á því að vinna Jessicu Mary Hogg 3-0 en Harriet tapaði sínum leik 1-3. Þær unnu svo tvíliðaleikinn örugglega 3-0. Agnes tapaði seinni einliðaleiknum en Harriet tryggði sigur í leiknum með 3-2 sigri á Jessicu Mary Hogg.
Seinni leikur meyjanna var gegn Austurríki í leik um 33. sæti, en þær töpuðu þeirri viðureign 0-3. Þær enduðu því í 34. sæti af 36 liðum á mótinu.
Drengirnir léku við Möltu öðru sinni og sigruðu 3-1, eins og í fyrra skiptið. Það munaði litlu að sigurinn yrði stærri því Ellert tapaði fyrsta leiknum 13-15 í oddalotu. Ingi Darvis og Gestur unnu næstu leiki 3-0 og Ingi kláraði leikinn með 3-1 sigri í seinni einliðaleiknum sínum. Drengirnir luku keppni í 43. sæti af 44. liðum.
Næst tekur við keppni í einliðaleik og tvíliðaleik, sem hefst 12. júlí. Sjá nánar í eldri frétt frá 11. júlí.
Rússar urðu Evrópumeistarar bæði í sveinaflokki og drengjaflokki og fengu silfur í hinum tveimur flokkkunum. Þýsku stúlkurnar sigruðu í stúlknaflokki en Frakkar í meyjaflokki. Azerar fengu silfur í drengjaflokki og Rúmenar í sveinaflokki.
Mynd á forsíðu af meyjaliðinu og Tómasi unglingalandsliðsþjálfara af fésbókarsíðu BTÍ.