Ísland vann Eistland í liðakeppni drengja á Norður-Evrópumóti unglinga
Á fyrsta keppnisdegi á Norður-Evrópumóti unglinga í Eistlandi var keppt í liðakeppni. Í öllum flokkum var liðum skipt í tvo riðla.
Í liðakeppni junior drengja (16-18 ára) sigraði Ísland I Eistland 3-2. Kári Ármannsson virðist hafa unnið oddaleikinn og Karl A. Claesson og Magnús Gauti Úlfarsson hafa unnið hina leikina. Auk þeirra leikur Ellert Kristján Georgsson með Íslandi I. Liðið tapaði 0-3 fyrir Finnlandi I og Noregi II og hafnaði í 3. sæti riðilsins.
Ísland II í junior flokki drengja tapaðí öllum sínum leikjum 0-3, fyrir Finnlandi II, Lettlandi, Noregi I og Svíþjóð.
Junior stúlkur (16-18 ára) léku við Eistland I, Finnland I og Noreg II og töpuðu öllum leikjum sínum 0-3.
Kadett sveinar (15 ára og yngri) léku við Eistland I, Lettland og Noreg II. Liðið tapaði 0-3 fyrir Eistlandi I og Lettlandi, en 2-3 fyrir Noregi II. Á Facebook síðu BTÍ kemur fram að Ingi Darvis Rodriquez var undir 3-10 í oddalotu í sínum leik en tókst að knýja fram sigur, 12-10. Ekki kemur fram hver vann hinn leik Íslands.
Í kadettflokki meyja (15 ára og yngri) lék Ísland við Eistland I, Lettland og Noreg og tapaði öllum leikjunum 0-3. Leikmenn Íslands, þær Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir og Lára Ívarsdóttir þreyttu í dag frumraun sína með unglingalandsliðinu en það gerðu einnig nokkrir aðrir leikmenn,
Á vef eistneska borðtennissambandsins er sýnt beint frá leikjum á mótinu á slóðinni http://otse.minurada.ee. Einnig má sjá klippur úr leikjum, úrslit og myndir á Facebook síðu Borðtennissambands Íslands.
Þann 27. júní verður liðakeppnin kláruð og keppni hefst í einstaklingsgreinum. Leikið er í riðlum í einliðaleik. Á vef eistneska borðtennissambandsins má sjá hverjir mætast á síðunni http://www.lauatennis.ee/web/node/1504.
ÁMU (uppfært 27.6.)