Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Ísland vann öll fimm gullin í einstaklingskeppni Arctic

Ísland vann öll fimm gullverðlaunin í einstaklingskeppni Arctic mótsins, sem fram fór í TBR-húsinu 17.-19. maí. Ísland vann einnig liðakeppni karla og kvenna og hirti því öll sjö gullverðlaunin sem keppt var um á mótinu. Það hefur ekki gerst áður, frá því að Arctic mótið fór fyrst fram árið 2013, að sama land ynni alla sjö flokkana. Í fyrra vann Ísland engan flokk.

Nevena og gullverðlaunin

Nevena Tasic vann alla flokkana sem hún keppti í, og fór því heim með fjögur gull að lokinni helginni. Hún sigraði í einliðaleik kvenna, í tvíliðaleik með Aldísi Rún Lárusdóttur og í tvenndarleik með Magnúsi Gauta Úlfarssyni auk liðakeppni.

Magnús Gauti sigraði í einliðaleik karla, þar sem hann lagði Magnús Kristinn Magnússon í æsispennandi úrslitaleik. Magnús Kristinn sigraði hins vegar í tvíliðaleik með Jóhannesi Bjarka Urbancic Tómassyni en þeir tveir síðarnefndu voru einnig í sigurliði Íslands í liðakeppni karla. Þeir Jóhannes, Magnús Gauti og Magnús Kristinn unnu því tvö gull hver um helgina.

Aldís Rún Lárusdóttir vann einnig tvö gull um helgina, annað í tvíliðaleik kvenna og hitt í liðakeppni.

Úrslit í einstökum flokkkum

Verðlaunahafar í tvenndarleik

Tvenndarleikur

1.         Magnús Gauti Úlfarsson/Nevena Tasic, Ísland

2.         Fróði F. Jensen/Durita F. Jensen, Færeyjar

3.-4.     Aqqalu Nielsen/Pipaluk Bech Serubabelsen, Grænland

3.-4.     Hallur Thorsteinsson/Rakul Mikkjalsdóttir, Færeyjar

Magnús Gauti og Nevena sigruðu Fróða og Duritu 3-1 (6-11, 11-2, 11-4, 11-9) í úrslitaleiknum. Þau lentu í mestum vandræðum gegn Ellert Kristjáni Georgssyni og Sól Kristínardóttur Mixa í riðlinum en unnu þau 3-2.

Verðlaunahafar í tvíliðaleik kvenna. Aldísi Rún Lárusdóttur vantar á myndina.

Tvíliðaleikur kvenna

1.         Aldís Rún Lárusdóttir/Nevena Tasic, Ísland

2.         Rosa-Marie Petersen/Pipaluk Bech Serubabelsen, Grænland

3.-4.     Melissa Larsen/Aviana Mariene Brinch Rødgaard, Grænland

3.-4.     Ársól Clara Arnardóttir/Þóra Þórisdóttir, Ísland

Úrslitaleikurinn í tvíliðaleiknum var æsispennandi og réðust úrslitin með tveggja stiga mun í oddalotu og ekki í eina skiptið á mótinu. Leiknum lauk 3-2 (9-11, 12-10, 6-11, 11-6, 12-10). Þessi pör voru í sama riðli og þá sigruðu Aldís og Nevena 3-1. Þær Rosa-Marie og Pipaluk höfðu áður unnið stöllur sínar frá Grænlandi, Melissu og Aviönu, 14-12 í oddalotu til að komast í úrslitin. Þær Ársól og Þóra komust nokkuð óvænt í undanúrslit en þær lögðu tvö íslensk pör, færeyskt par og blandað íslenskt og færeyskt par til að ná í verðlaunin.

Tvíliðaleikur karla. Inga Darvis Rodriguez vantar á myndina.

Tvíliðaleikur karla

1.         Magnús Kristinn Magnússon/Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, Ísland

2.         Ingi Darvis Rodriguez/Magnús Gauti Úlfarsson, Ísland

3.-4.     Fróði F. Jensen/Hallur Thorsteinsson, Færeyjar

3.-4.     Ejner Nielsen Kleist/Aqqalu Nielsen, Grænland

Ísland vann tvöfalt í tvíliðaleik karla og unnu Jóhannes og Magnús 3-1 (5-11. 12-10, 11-8, 11-8) í úrslitaleiknum. Þeir Jóhannes og Magnús töpuðu einum leik í riðlinum, gegn Grænlendingunum Ejner og Aqqalu, sem fengu brons.

Einliðaleikur kvenna

1.         Nevena Tasic, Ísland

2.         Pipaluk Bech Serubabelsen, Grænland

3.-4.     Rakul Mikkjalsdóttir, Færeyjar

3.-4.     Melissa Larsen, Grænland

Úrslitaleikurinn var mjög jafn en ekkert gefið eftir, þótt leikmenn væru orðnir þreyttir eftir langan dag. Nevena hafði sigur í oddalotu 4-3 (10-12, 11-4, 10-12, 11-9, 11-4, 5-11, 11-9) en hún var lengst af undir í leiknum og í oddalotunni. Hún gafst ekki upp og náði að knýja fram sigur í lokin. Nevena er því enn ósigruð í kvennaflokki á Íslandi, því hún hefur ekki tapað leik fyrir konu frá því að hún keppti fyrst á Íslandi vorið 2018.

Einliðaleikur karla

1.         Magnús Gauti Úlfarsson, Ísland

2.         Magnús Kristinn Magnússon, Ísland

3.-4.     Fróði F. Jensen, Færeyjar

3.-4.     Eyðun Ellendersen, Færeyjar

Magnús Gauti lagði Fróða Jensen frá Færeyjum 4-3 í undanúrslitum og Magnús Kristinn vann Eyðun Ellendersen 4-2. Þeir nafnar börðust hart í úrslitaleiknum en Magnús Kristinn lék betur í fyrri hlutanum og komst í 3-1 í lotum. Í 6. lotunni fékk Magnús Kristinn þrisvar sinnum tækifæri til að gera út um leikinn. Það tókst ekki og Magnús Gauti knúði fram oddalotu, þar sem hann sigraði 11-9. Tölurnar úr leiknum voru 8-11, 11-9, 4-11, 7-11, 11-4, 15-13, 11-9. Magnús Gauti fagnaði vel enda varð hann í 2. sæti á síðustu tveimur Arctic mótum.

Næsta Arctic mót verður haldið í Færeyjum að ári.

Öll úrslit úr mótinu má finna á vef mótsins á síðu Tournament Software,
http://www.tournamentsoftware.com/sport/tournament.aspx?id=31D0371A-3D74-4F96-AC77-D7AE307B14EC

Fjölmargar myndir frá mótinu má finna á fésbókarsíðu BTÍ.

Aðrar fréttir