Íslandsmót: Riðlakeppni tekin upp í meistaraflokki
Það styttist í Íslandsmót fullorðinna en mótið fer fram eftir mánuð eða 28. febrúar til 2. mars. Mótið verður að þessu sinni haldið í TBR húsinu í Laugardal.
Sérstök mótstjórn hefur verið skipuð en í henni sitja Ásta Urbancic, Eyrún Elíasdóttir og Davíð Örn Halldórsson.
Mótið hefst kl. 18:30 á föstudeginum 28. febrúar og leikið verður fram á sunnudag.
Tekið verður við skráningum í nýja greiðslukerfi BTÍ sem gaf góða raun á flokkakeppni unglinga í nóvember. Hverjum keppanda er heimilt að keppa í tveimur einliðaleiksflokkum.
Nánari upplýsingar um dagskrá, skipulag og skráningu er væntanleg.
Reglugerðarbreyting
Vakin er athygli á einni breytingu sem verður gerð tilraun með í ár í framhaldi af umræðu á síðasta ársþingi en keppt verður í riðlum í meistaraflokki í fyrsta sinn. Vonast er til að þetta verði til þess að skráningum fjölgi í meistaraflokki karla og kvenna og þannig stækka mótið.
Íslandsmótið hefur verið óbreytt í yfir 20 ár og stjórnin telur jákvætt að þróa það í takt við keppni á Norðurlöndunum.
Ætlunin er svo að taka samtal við leikmenn á meðan móti stendur og eftir það um hvort þetta sé skemmtilegt og hvernig megi þróa mótið enn lengra í góða átt.
Breytingin á reglugerð um Íslandsmót er eftirfarandi:
Á eftir 1. setningu 3. mgr. 4. gr. reglugerðar um Íslandsmót bætist við eftirfarandi texti:
Á Íslandsmótinu 2025 skal þó keppt í riðlum í einliðaleik í meistaraflokki með eftirfarandi hætti:
- Taki fimm eða færri leikmenn þátt í flokki skal leikið með beinum útslætti líkt og fyrr.
- Taki sex eða fleiri leikmenn þátt í flokki skal keppt í þriggja manna riðlum (og einum til tveimur fjögurra manna riðlum gangi leikmenn af) þar sem tveir leikmenn komast áfram og beinum útslætti að því loknu.
- Í meistaraflokki karla og kvenna skulu þeir leikmenn sem hljóta röðun skv. 17. gr. keppnisreglna BTÍ sleppa við riðlakeppni og komast beint áfram í útsláttinn, séu 33 leikmenn eða fleiri skráðir til leiks í flokknum.