Íslandsmót unglinga í borðtennis – Hrafnagil – 14. og 15. apríl 2018, dagskrá og skráning
Auglýsingu um mótið á PDF sniði er einnig að finna hér.
Íslandsmót unglinga í borðtennis verður að þessu sinni haldið í Íþróttamiðstöðinni við Hrafnagil í Eyjafjarðarsveit dagana 14. og 15. apríl. Það eru Íþróttafélagið Akur á Akureyri, Umf. Æskan á Svalbarðsströnd og Umf. Samherjar í Eyjafjarðarsveit sem standa að mótinu þetta árið.
Leikið verður í fjórum aldursflokkum drengja og stúlkna í einliðaleik og þremur aldursflokkum í tvíliðaleik og tvenndarkeppni sbr. reglugerð Borðtennissambands Íslands um Íslandsmót.
Dagskrá:
Laugardagur 14. apríl
Einliðaleikur að undanúrslitum:
10:00 Einliðaleikur hnokka -11 ára, fæddir 2007 og síðar
10:00 Einliðaleikur táta -11 ára, fæddar 2007 og síðar
12:00 Einliðaleikur telpna 12-13 ára, fæddar 2005-2006
Tvenndarkeppni:
10:30 Tvenndarkeppni -13 ára, fædd 2005 og síðar
11:00 Tvenndarkeppni 14-15 ára, fædd 2003-2004
11:30 Tvenndarkeppni 16-18 ára, fædd 2000-2002
Nánari tímasetningar verða gefnar út þegar að skráningar liggja fyrir.
Stefnt er að því að keppa í einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarleik á laugardaginn. Tvenndarleikurinn verður spilaður til úrslita skv. reglugerð en tvíliðaleikurinn að úrslitum eða eins langt og tími vinnst til.
Sunnudagur 15. apríl
Keppni í undanúrslitum hefst kl 10.00. (Það er þó mögulegt að undanúrslit og úrslit í flokkum 14 – 15 ára hefjist klukkan 8:00. Verður klárt þegar skráningar liggja fyrir.)
Verðlaunaafhending í öllum flokkum mun fara að loknum úrslitaleikjum.
Fyrirkomulag keppni
Keppt verður í riðlum í einliðaleik og síðan leikið upp úr riðlum með einföldum útslætti. Í tvíliðaleik og tvenndarkeppni er leikið með einföldum útslætti skv. reglugerð um Íslandsmót. Þrjár unnar lotur þarf til að vinna leik. Samkvæmt ákvörðun stjórnar BTÍ þurfa a.m.k. tveir keppendur að vera skráðir í flokk til þess að keppni fari fram. Ef eingöngu tveir keppendur eru skráðir í flokk í einliðaleik fer úrslitaleikurinn fram sunnudaginn 15. apríl.
- Við röðun í mótið verður farið eftir nýjasta styrkleikalista BTÍ.
- Leikið verður á Butterfly borðum með hvítum þriggja stjörnu Butterfly plastkúlum.
- Mælst er til þess að leikmenn leiki í búningum síns félags.
- Verðlaun verða veitt fyrir fjögur efstu sætin í öllum flokkum.
Þátttökugjöld og skráning
Þátttökugjald er 2.000 kr. í einliðaleik og 2.000 kr. fyrir parið í tvíliðaleik og tvenndarkeppni (1.000 kr. á mann) samkvæmt ákvörðun stjórnar BTÍ.
Síðasti skráningardagur er fimmtudagurinn 12. apríl kl. 12.00.
Skráningum skal skilað til mótstjórnar með skráningu á vef Tournament Software á slóðinni: http://www.tournamentsoftware.com/sport/tournament.aspx?id=8F495D03-31D9-435E-B249-13B75BDCEE25 Leiðbeiningar um skráningu í gegnum Tournament Software má finna á vefsíðu BTÍ, www.bordtennis.is. Ef vandkvæði eru með skráningu á vefnum má einnig skila skráningu til mótsstjórnar með tölvupósti.
Kennitölur skulu fylgja öllum skráningum í samræmi við keppnisreglur BTÍ.
Dregið verður í mótið fimmtudaginn 12. apríl kl. 21:30 á mótsstað.
Samkvæmt reglugerð er þátttaka á Íslandsmótum aðeins heimil íslenskum ríkisborgurum og erlendum ríkisborgurum sem hafa verið búsettir og átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár þegar mót fer fram.
Mótsstjórn
Jonas Björk [email protected] 844 6344
Starri Heiðmarsson [email protected] 663 2650
Helgi Þór Gunnarsson [email protected] 858 2050
Yfirdómari
Sigurður Eiríksson [email protected] 862 2181
Gisting, fæði og fleira gagnlegt.
Veðrið verður sérstaklega gott alla helgina eins og alltaf í Eyjafirði. J
Það er boðið upp á gistingu í skólastofum í Hrafnagilsskóla og jafnframt er boðið upp á morgunmat hádegismat og kvöldmat á laugardeginum og morgunmat og hádegismat á sunnudeginum.
Fyrir þetta þarf að greiða kr. 8.000 þegar mætt er á staðinn. Því miður getum við ekki boðið upp á posa og enginn hraðbanki er á staðnum. Sama verð er fyrir alla, sama á hvaða aldri þeir eru, og foreldrar og aðrir fylgifiskar keppenda eru meira en velkomnir. Nauðsynlegt er að taka dýnur og svefnpoka/sængur með sér.
Við gerum ráð fyrir að það fylgi fullorðnir einstaklingar öllum keppnishópum sem taka ábyrgð á sér og sínum. Sólarhringsvakt verður í íþróttahúsinu/skólanum yfir keppnishelgina en við byrjum að taka á móti gestum klukkan 17:00 föstudaginn 13. apríl.
Ef þeir sem gista ekki á staðnum vilja kaupa fæðið sérstaklega kostar það kr. 6.000. Fæði og gistingu þarf að panta fyrirfram, helst ekki síðar en þriðjudaginn 10. apríl til þess að hægt sé að skipuleggja allt sem best.
Á laugardagskvöldið munum við hafa „sundlaugarpartí“ milli kl. 20 og 22 gestum okkar að kostnaðarlausu.
Sundlaug staðarins er annars opin frá kl. 10 að morgni til kl. 17 seinnipartinn og er aðgangseyrir fyrir 17 ára og yngri kr. 200. Það er verslun í sundlauginni með drykki, ís og eitthvað smálegt en auk þess verða foreldrar borðtennisiðkenda með veitingasölu á svæðinu.
Skráningu á gistingu eða fyrirspurnir varðandi ofangreint er fínt að senda á [email protected](862 2181) eða [email protected](861 9414) en það eru þeir feðgar og borðtennisþjálfarar hjá Umf. Samherjar, Sigurður Eiríksson og Ólafur Ingi Sigurðsson sem eiga þau netföng.
Hlökkum til að sjá ykkur í Eyjafirðinum.
Mótsstjórn