Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Íslandsmótið 2022

Magnús Gauti Úlfarsson (t.v.) og Nevena Tasic (t.h.), ríkjandi Íslandsmeistarar í einliðaleik.

Auglýsingu og dagskrá á PDF sniði er að finna með því að smella hér.

Íslandsmótið í borðtennis 2022 fer fram í Íþróttahúsinu við Strandgötu 53 í Hafnarfirði 4.-6. mars. Mótið er í sameiginlegri umsjá Borðtennisdeildar BH og Borðtennisdeildar KR sem halda mótið fyrir hönd Borðtennissambands Íslands. Leikið verður í einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarleik.

Í þessu skjali er að finna upplýsingar um dagskrá mótsins, keppnisfyrirkomulag, leikheimildir, skráningar, keppnisgjöld og drátt mótsins. Sömuleiðis er fjallað um hvaða aðstaða býðst fyrir leikmenn, áhorfendur og fjölmiðla, upplýsingar um samgöngur til og frá keppnisstað, dómgæslu og eftirlit. Neðst eru svo upplýsingar um mótsstjórn og hvert beina skuli fyrirspurnum.

Dagskrá

Föstudagur 4. mars

16.00 Landsdómarapróf – Opið öllum
18.00 Íslandsmótið sett
18.10 Tvíliðaleikur kvenna & karla

Laugardagur 5. mars

09.00 Tvenndarleikur
10.00 Meistaraflokkur karla
11.00 Meistaraflokkur kvenna
12.00 1. Flokkur karla
13.00 1. Flokkur kvenna
14.00 2. Flokkur kvenna
15.00 2. Flokkur karla – Efri helmingur*
16:30 2. Flokkur karla – Neðri helmingur*

Sunnudagur 6. mars

10.00 Undanúrslit Tvíliðaleikur kvenna & karla
10.40 Úrslit Tvíliðaleikur kvenna & karla
11.20 Undanúrslit 1. & 2. Flokkur kvenna & karla
12.00 Úrslit 1. & 2. Flokkur kvenna & karla
13.00 Undanúrslit Meistaraflokkur kvenna
13.40 Undanúrslit Meistaraflokkur karla
14.20 Úrslit Meistaraflokkur kvenna
15.00 Úrslit Meistaraflokkur karla
15.40 Verðlaunaafhending

*2. Flokkur karla verður settur í gang í tveimur hlutum vegna keppendafjölda. Leikmenn verða dregnir inn í keppnistöfluna af handahófi. Efri helmingur töflunnar verður ræstur klukkan 15.00 og neðri helmingur töflunnar verður ræstur klukkan 16.30. Þetta verður auglýst nánar þegar drátturinn liggur fyrir.

Keppnisfyrirkomulag

Leiknar verða 3-5 lotur í öllum flokkum nema í meistaraflokki karla og kvenna þar sem leiknar eru 4-7 lotur. Keppt verður með hvítum Stiga*** keppniskúlum. Verðlaun verða veitt fyrir efstu fjögur sætin í hverjum flokki. Íslandsmeistaratitill verður veittur fyrir efsta sætið í hverjum flokki. Mótið gildir til styrkleikalista Borðtennissambands Íslands.

Leikheimild

Keppni á Íslandsmótinu í borðtennis er opin öllum íslenskum ríkisborgurum og þeim erlendu ríkisborgurum sem hafa átt búsetu og lögheimili á Íslandi í þrjú ár við upphaf móts.

Keppnisgjöld

Keppnisgjöld eru 2000 kr. Í öllum flokkum nema í 2. flokki þar sem keppnisgjöld eru 1000 krónur. Þeir leikmenn sem keppa í þremur eða tveimur flokkum fá að keppa í einum flokki til viðbótar án endurgjalds. Gjald í ódýrasta flokknum verður þá fellt niður.

Tvenndarleikur 2000 kr. parið
Tvíliðaleikur 2000 kr. parið
Meistaraflokkur 2000 kr. 
1. flokkur 2000 kr.
2. flokkur 1000 kr. 

Skráning

Skráning fer fram með tölvupósti á netfang borðtennisdeildar BH, [email protected]. Í skráningu skal taka fram fullt nafn keppanda, kennitölu og félag. Greiða skal fyrir keppni með millifærslu á reikning Borðtennisdeildar BH:

Kennitala: 620709-0180
Reikningsnúmer: 0544-26-16207
Afrit sendist á [email protected]
Setjið kennitölu keppanda í skýringu.

Hægt er að fylgjast með skráningum á mótið hér: Skráningar á Íslandsmótið í borðtennis 2022 

Dregið í mótið

Dregið verður í mótið miðvikudagskvöldið 2. mars klukkan 20:00. Allar skráningar skulu berast fyrir þann tíma. Dregið verður í mótaforritinu Tournament Software og mun drátturinn verða birtur í gegnum það.

Eftirlit

Sérstakt eftirlit verður með búnaði leikmanna á sunnudeginum 6. mars í samræmi við keppnisreglur Alþjóðaborðtennissambandsins (ITTF). Leikmenn þurfa að skila spaðanum sínum inn til eftirlits á dómaraborði 15 mínútum fyrir hvern leik á sunnudeginum.

Aðstaða

Aðstaða verður fyrir keppendur til að hita upp, hlaupa á hlaupabretti, teygja og lyfta lóðum. Sérstakt slökunar- og hugleiðsluherbergi verður sett upp fyrir þá leikmenn sem keppa í meistaraflokki. Búningsklefar verða í boði fyrir hvert kyn. Aðgengi fyrir fatlaða er norðanmegin á húsinu.

Rúmgóð áhorfendastúka er í keppnishöllinni. Fyrir áhorfendur verður boðið upp á kaffi og te og lítil setustofa verður sett upp á efri hæð íþróttahússins þar sem hægt verður að fylgjast með Íslandsmótinu í beinni útsendingu af risaskjá. Drykkir og léttar veitingar verða seldar auk þess sem lítil verslun er í göngufæri.

Fjölmiðlaaðstaða verður á 2. hæð íþróttahússins og fá fjölmiðlar aðgang að interneti hússins. Léttar veitingar og veigar verða í boði fyrir fjölmiðlafólk.

Sölufulltrúi frá PingPong.is verður með bás á staðnum. Sölubás frá Borðtennisdeild BH mun selja BH-tengdan varning. Borðtennisdeild BH og Borðtennisdeild KR munu bjóða til sölu fatnað úr safni Borðtennissambands Íslands.

Samgöngur

Íþróttahúsið við Strandgötu liggur innan 3 mínútna göngufæri frá Firðinum, þar sem strætisvagnar stoppa. Vagn 1 fer frá BSÍ sem er innan göngufæris frá Reykjavíkurflugvelli, vagn 21 fer frá Mjódd, sem er aðkoma flestra strætisvagna utan af landi og vagn 55 fer frá Reykjanesbæ og Keflavíkurflugvelli. Þessir vagnar stoppa allir í Firðinum.

Ef keppendur óska eftir að vera sóttir af sérstökum ástæðum skal hafa samband við mótsstjórn tímanlega í gegnum [email protected] undir yfirskriftinni “BHAkstur” 

Dómarar

Yfirdómarar verða Mímir Kristínarson Mixa og Pétur Marteinn Urbancic Tómasson, með fyrirvara um breytingar. Borðtennisdeild BH auglýsir eftir landsdómurum til að dæma á mótinu gegn greiðslu. Umsóknir um dómarastöðu á mótinu sendist á [email protected] undir yfirskriftinni “Dómarar.”

Landsdómarapróf í borðtennis verður haldið fyrir setningu móts á föstudeginum 4. mars klukkan 16.00. Prófið er öllum opið en til þess að hafa próftökurétt þarf að greiða skrásetningargjald 1.500 krónur fyrir upphaf prófsins. Prófdómari verður Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, alþjóðadómari ITTF. Til prófs eru reglur ITTF, dómaraglærupakkar 1 & -2 og dómarahandbók ITTF (á ensku). Allt námsefni til prófs er að finna undir flipanum dómarahornið á vefsíðu Borðtennissambands Íslands. Próftakendum er sérstaklega ráðlagt að kynna sér vel glærupakka 1 & 2. Próftími er ein klukkustund og ekkert aldurstakmark er til að taka prófið. Skrásetningargjald greiðist inn á bankareikning Borðtennissambands Íslands, r.nr.: 0334 26 050073, kt.: 5812730109 og nauðsynlegt er að senda kvittun fyrir greiðslunni á [email protected]

Mótsstjórn og spurningar

Í mótsstjórn sitja Auður Tinna Aðalbjarnardóttir (KR), Hlöðver Steini Hlöðversson (KR), Ingimar Ingimarsson (BH), Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson (BH), Nedelina Ivanova (BH), Pétur Gunnarsson (KR), Skúli Gunnarsson (KR) & Tómas Ingi Shelton (BH).

Öllum spurningum varðandi mótið skal beint til [email protected] undir yfirskriftinni “Fyrirspurn.”

Annað

Myllumerki mótsins er #Bordtennis2022 og verður það notað fyrir fréttir og myndbönd af mótinu. Við hvetjum þá sem birta margmiðlunarefni frá mótinu til að nota myllumerki mótsins.

Auglýsing er birt með fyrirvara um að samkomutakmarkanir vegna sóttvarna geta breyst frá því að auglýsingin var birt þangað til mótið hefst. Í því tilviki verður auglýsingin uppfærð.

Kort

Aðrar fréttir