Jón Sigurðsson látinn
Jón Sigurðsson borðtennismaður úr Keflavík er látinn, 59 ára að aldri. Jón var meðal bestu borðtennismanna landsins á áttunda áratug síðustu aldar, og keppti fyrir Ungmennafélag Keflavíkur. Hann var öflugur borðtennismaður og þótti fádæma höggfastur. Jón varð Íslandsmeistari í drengjaflokki 1974 og lék þrjá A-landsleiki, auk unglingalandsleikja.
Jón lagði spaðann á hilluna um tvítugt en keppti á örfáum mótum fyrir um áratug, þá fyrir Víking.
Jón var lengi búsettur á Bíldudal og starfaði sem sjómaður. Hann var einnig áhugasamur veiðimaður og þekktur fyrir fluguhnýtingar.
Jón verður jarðsunginn frá Fríkirjunni í Reykjavík 12. nóvember kl. 13 en jarðsettur á Bíldudal, þar sem verður haldin minningarathöfn 14. nóvember kl. 14. Borðtennisfólk sendir fjölskyldu Jóns samúðarkveðjur.
Meðfylgjandi mynd er gömul blaðaljósmynd af Jóni (fjær) og Hirti Magna Jóhannssyni (nær) úr úrslitaleik í tvíliðaleik karla á Íslandsmótinu 1976, sem þeir töpuðu í æsispennandi leik.
ÁMU