Kína vann öll fimm gullin í borðtennis á ÓL
Kínverjar sýndu enn og aftur að þeir eru besta borðtennisþjóð heims með sigri í öllum fimm greinunum sem keppt var í á Ólympíuleikunum.
Í liðakeppni karla unnu Kínverjar Svíþjóð 3-0 í úrslitum. Hart var barist í einstökum leikjum og lauk öllum leikjunum í oddalotu. Ma Long lék tvíliðaleikinn fyrir Kína og vann sín sjöttu gullverðlaun á Ólympíuleikum, en enginn borðtennismaður hefur afrekað það áður. Aðrir í liði Kína voru Wang Chuqin og Fan Zhendong en sænska liðið skipuðu Anton Kallberg, Kristan Karlsson og Truls Moregard.
Svíar komust nokkuð óvænt í úrslit eftir að hafa sigrað Japan í undanúrslitum.
Frakkar unnu bronsið eftir 3-2 sigur á Japan í leiknum um 3. sætið. Í lokaleiknum vann bronsverðlaunahafinn Felix Lebrun Hiroto Shinozuka í framlengri oddalotu til að tryggja Frökkum sín fyrstu verðlaun í liðakeppni í borðtennis á Ólympíuleikum.
Í liðakeppni kvenna sigruðu kínversku konurnar Japan 3-0 í úrslitaleiknum. Það voru þó jafnir leikir í viðureigninni og fóru einstakir leikir 3-2, 3-0 og 3-1. Í sigurliði Kína voru Chen Meng, Sun Yingsha og Wang Manyu en þær voru líka í sigurliði Kína í Tokyo. Í liði Japan voru Hina Hayata, Miwa Harimoto og Miu Hirano.
Suður-Kórea lagði Þýskaland 3-0 í bronsleiknum.
Fan Zhendong sigraði í einliðaleik karla en hann lagði Svíann Truls Moregard 4-1 í úrslitum. Truls komst óvænt í úrslit en hann lagði m.a. leikmanninn sem var raðað nr. 1, Wang Chuqin frá Kína á leið sinni í úrslitin.
Frakkinn Félix Lebrun vann Brasilíumanninn Hugo Calderano 4-0 í bronsleiknum og varð yngsti leikmaðurinn til að vinna til verðlauna í borðtennis, en hann er 17 ára. Calderano er fyrsti leikmaðurinn til að komast í undanúrslit í borðtennis á Ólympíuleikum sem er hvorki frá Asíu né Evrópu.
Í einliðaleik kvenna mættust kínversku konurnar tvær í úrslitum. Chen Meng, sem var raðað nr. 2, vann Sun Yingsha, sem var raðað nr. 1 4-2, og varði titilinn sem hún vann í Tokyo. Hina Hayata frá Japan vann bronsið eftir 4-2 sigur á Shin Yubin frá Suður-Kóreu.
Í tvenndarleik sigruðu Wang Chuqin og Sun Yingsha en þau unnu Ri Jong Sik og Kim Kum Yong frá Norður-Kóreu 4-2 í úrslitum. Lim Jonghoon og Shin Yubin frá Suður-Kóreu fengu bronsið.
Næstu sumarÓlympíuleikar verða í Los Angeles í Bandaríkjunum sumarið 2028.
Myndir af vef ITTF.