Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

KR-A Íslandsmeistari í 1. deild karla, Keldudeildinni

A-lið KR varð Íslandsmeistari í 1. deild karla, Keldudeildinni, eftir sigur á HK-A í úrslitaleik. Leikið var í Íþróttahúsinu við Strandgötu sunnudaginn 8. maí.

Leiknum lauk með 3-0 sigri KR-A. Leikurinn var þó mun jafnari en þessar tölur gefa til kynna.

Þeir Ellert Kristján Georgsson og Gestur Gunnarsson sigruðu þá Bjarna Þorgeir Bjarnason og Óskar Agnarson örugglega 3-0í tvíliðaleiknum.

Næst mættust Norbert Bedo fyrir KR-A og Björn Gunnarsson fyrir HK-A. Björn hafði sigur í jafnri 1. lotu en Norbert jafnaði í 1-1 í jafnri lotu. Norbert náði að vinna þriðju lotuna. Í 4. lotunni var Björn yfir 9-5 en Norbert náði góðum endaspretti og sigraði 11-9, og vann þar með leikinn 3-1.

Í 3. leiknum lék Ellert gegn Óskari. Í leiknum voru fyrstu fjórar loturnar jafnar, en Ellert var yfir 2-1 og hafði tvö tækifæri til að tryggja sér sigur í lok 4. lotu. Það tókst ekki og Óskar jafnaði leikinn í 2-2. Ellert sigraði hins vegar örugglega í oddalotunni og tryggði sér sigurinn og þar með KR sigur í viðureigninni.

KR varð síðast Íslandsmeistari í 1. deild karla árið 2017 og þessi titill er sá 24. sem liðið vinnur í 1. deild karla.

Leikmenn sem léku með KR-A á keppnistímabilinu voru þessir: Ellert Kristján Georgsson, Gestur Gunnarsson, Hlöðver Steini Hlöðversson, Ingólfur Sveinn Ingólfsson, Norbert Bedo og Pétur Gunnarsson.

Umgjörð úrslitadagsins var til fyrirmyndar af hálfu BTÍ og BH. Streymt var frá leikjunum á YouTube rás Borðtennissambands Íslands og geta þeir sem misstu af leikjunum horft á þá þar.

Leikskýrsla frá úrslitaleiknum er í viðhengi.

Aðrar fréttir