KR vann flesta Íslandsmeistaratitla 2020-2021
Á keppnitímabilinu 2020-2021 var keppt um 38 Íslandsmeistaratitla og tókst að halda öll Íslandsmótin þrátt fyrir kórónuveiru faraldurinn, nema hvað flokkakeppni unglinga var felld niður.
KR vann flesta titla, 11 talsins, Víkingur vann 9,5 titil, HK 7,5 titla og BH 7. Örninn vann tvo titla og Akur einn, sem var um leið fyrsti titill félagsins í unglingaflokki.
Víkingar unnu flesta titla í fullorðisflokkum, 5 talsins, alla í meistaraflokki. Þar af sigruðu Víkingar bæði í 1. deild karla og kvenna. BH vann fjóra titla í fullorðinsflokkum, þar af tvo titla í meistaraflokki. KR vann flesta titla í unglingaflokkum og öldungaflokkum.
Sjá meðfylgjandi skjal:
Alls dreifðust Íslandsmeistaratitlarnir á 45 einstaklinga. Agnes Brynjarsdóttir, Víkingi, vann flesta titla, fimm talsins, þar af þrjá í unglingaflokkum. Nevena Tasic, Víkingi, vann alla fjóra titlana í meistaraflokki kvenna. Anna Sigurbjörnsdóttir, KR, vann þrjá titla, alla í öldungaflokki. Alexander Ivanov, BH; Bjarni Þorgeir Bjarnason, HK; Eiríkur Logi Gunnarsson, KR; Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir, KR; Ingi Darvis Rodriguez, Víkingi, Jón Arnar Finnbogason, Víkingi; Lóa Floriansdóttir Zink, Víkingi; Magnús Gauti Úlfarsson, BH; Nikulás Dagur Jónsson, BH; Ólafur H. Ólafsson, Erninum og Örn Þórðarson, HK unnu tvo titla hvert. Mörg þeirra hefðu átt möguleika á að bæta við titli í flokkakeppni unglinga.
Alls voru veitt 138 verðlaun á Íslandsmótunum þetta árið. KR fékk flest verðlaun eða 41, Víkingur fékk 34 og BH fékk 27,5. Að auki fengu keppendur úr HK, Garpi, Erninum, Akri, BR, Umf. Samherjum, Umf. Selfoss og ÍFR verðlaun á Íslandsmótum keppnistímabilsins.
Verðlaunin sem nýstofnað Borðtennisfélag Reykjanesbæjar (BR) fékk eru fyrstu verðlaun félagsins á Íslandsmóti í borðtennis og að öllum líkindum má segja það sama um verðlaun Umf. Selfoss.
Uppfært Íslandsmeistaratal með meisturum ársins verður sett inn á vefinn fljótlega undir Nýtt á bordtennis.is en er aðgengilegt hér: