Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Magnús Gauti annar í einliðaleik á Arctic í Nuuk

Magnús Gauti Úlfarsson fékk silfur í einliðaleik karla á Arctic mótinu í Nuuk, en mótinu lauk í dag. Magnús Gauti tapaði í úrslitum 0-4 fyrir Ivik Nielsen frá Grænlandi, en sömu menn léku til  úrslita á mótinu í fyrra. Ivik hefur nú sigrað í einliðaleik karla á mótinu í þrjú ár í röð.

Fimm íslenskir leikmenn komust upp úr riðlunum í einliðaleik karla og lentu þeir allir í neðri hluta töflunnar. Þeir slógu því hvern annan út á leið í úrslitin. Birgir sló Inga út í 16 manna úrslitum 4-3 og tapaði svo fyrir Magnúsi Gauta í 8 manna úrslitum. Magnús Jóhann sló Jóhannes út í 8 manna úrslitum og tapaði í undanúrslitum fyrir Magnúsi Gauta. Magnús Jóhann fékk því brons í einliðaleik.

Engin íslensku kvennanna komst í útsláttarkeppnina í einliðaleik. Þar sigraði hin færeyska Henrietta Nielsen, sem hefur sigrað á þeim Arctic mótum sem  hún hefur tekið þátt í síðustu ár.

Nánari umfjöllun um íslenska liðið og fjölmargar myndir má sjá á fésbókarsíðu BTÍ. Auk þess var frétt á þessum vef um gengi íslensku leikmannanna í tvíliðaleik og tvenndarleik frá 19. maí uppfærð, þegar meiri upplýsingar lágu fyrir um gengi leikmanna.

Arctic mótið verður haldið á Íslandi árið 2019 og umræða er á milli landanna um að bæta við Arctic keppni barna og unglinga.

Íslensku leikmennirnir munu taka þátt í æfingabúðum næstu tvo daga í Nuuk.

Úrslit í einstökum flokkum:

Einliðaleikur kvenna:
1. Henrietta Nielsen, Færeyjum
2. Rosa-Marie Petersen, Grænlandi
3.-4. Anna Mikkjalsdóttir, Færeyjum
3.-4. Karliinannguaq Lundblad, Grænlandi

Einliðaleikur karla:
1. Ivik Nielsen, Grænlandi
2. Magnús Gauti Úlfarsson, Íslandi
3.-4. Fródi Jensen, Færeyjum
3.-4. Magnús Jóhann Hjartarson, Íslandi

Á forsíðumyndinni má sjá íslensku leikmennina á mótinu ásamt landsliðsþjálfaranum Ólafi Rafnssyni.

 

ÁMU

Aðrar fréttir