Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Magnús Gauti og Magnús Jóhann keppa á EM í Alicante

Evrópumeistaramót fullorðinna fer fram í Alicante á Spáni 18.-21. september. Tveir leikmenn frá Íslandi taka þátt í mótinu, þeir Magnús Gauti Úlfarsson, BH og Magnús Jóhann Hjartarson, Víkingi. Hópurinn fer frá Íslandi 16. september og kemur heim þann 24.

Auk þeirra nafna fer Ingimar Ingimarsson, formaður BTÍ á vegum sambandsins til Alicante. Ingimar mun sitja þing evrópska borðtennissambandsins ETTU og Norður-Evrópusambandsins NETU.

Á þessu móti er eingöngu leikið í einstaklingsgreinum. Þeir nafnar leika í einliðaleik og saman í tvíliðaleik. Þá leikur Magnús Jóhann með norsku stúlkunni Rebekku Carlsen í tvenndarleik.

Keppnisfyrirkomulagið er þannig að keppt er í 64 manna töflu í einliðaleik og 32 manna töflu í tvíliðaleik og tvenndarleik. Röðun fá 32 leikmenn inn í töfluna í einliðaleik og 16 pör í tvíliðaleik. Til að fá sæti í 64 manna töflunni í einliðaleik þarf að komast áfram úr undanriðli þar sem ekki eiga að vera færri en fjórir leikmenn. Til að fá sæti í 32 manna töflunni í tvíliðaleik þarf að komast áfram í undankeppni sem er einfaldur útsláttur. Í einliðaleik þarf að vinna 4 lotur (best af 7). Í undankeppninni í tvíliðaleik þarf að vinna 3 lotur (best af 5).

Þriðjudaginn 18. september mun keppni hefjast í undanriðlum í einliðaleik. Fyrsta umferðin verður leikin milli kl. 10:30 og 13:30 í undanriðlum. Önnur umferðin mun vera leikin milli kl. 16:00 og 19:45. Keppni í riðlunum heldur svo áfram 19. september.

Dregið var í riðla síðdegis 16. september. Magnús Jóhann leikur í riðli 11, ásamt Samuel Walker frá Englandi, Cristian Pletea frá Rúmeníu og Miguel Vilchez frá Spáni. Leikirnir fara fram 18. sept. kl. 12.00 og kl. 18.00, og 19. sept. kl. 15.05 að staðartíma.

Magnús Gauti leikur í 19. riðli. Með honum í riðli eru Andreas Levenko frá Austurríki, Laurens Tromer frá Hollandi og Zsolt Peto frá Serbíu. Leikirnir fara fram 18. sept. kl. 12.45 og kl. 18.45, og 19. sept. kl. 15.55 að staðartíma.

Heimasíða mótsins: http://ettc2018.com/.

Dráttinn má sjá á síðunni https://bornanblob.blob.core.windows.net/ittf-web-results/html/TTE2885/groups.html .

 

ÁMU (uppfært 17.9.)

Aðrar fréttir