Magnús Gauti og Sól Íslandsmeistarar í tvenndarleik
Keppni á öðrum degi Íslandsmótisins 2020 stóð allan hlaupársdaginn 29. febrúar. Leikið var til úrslita í tvenndarleik og fram að undanúrslitum í öllum flokkum í einliðaleik. Keppni lýkur sunnudaginn 1. mars og hefst keppni kl 11. Sjá nánar í frétt efst á síðunni og á dagatalinu hægra megin á síðunni. Skráðir keppendur eru 155 frá 15 félögum, sem er mun meiri þátttaka en undanfarin ár.
Magnús Gauti Úlfarsson og Sól Kristínardóttir Mixa úr BH urðu Íslandsmeistarar í tvenndarleik og var þetta þeirra fyrsti titill og fyrsti titill BH í tvenndarleik. Þau sigruðu mæðginin Ástu M. Urbancic, KR og Jóhannes Bjarka Urbancic Tómasson, BH 3-1 (11-2, 7-11, 11-1, 12-10) í úrslitaleik. Í 3.-4. sæti urðu Íslandsmeistarar síðustu þriggja ára Aldís Rún Lárusdóttir og Davíð Jónsson, KR og Stella Karen Kristjánsdóttir og Magnús Jóhann Hjartarson, Víkingi.
Í öllum einliðaleiksflokkunum eru Íslandsmeistarar síðasta árs enn með í keppni í undanúrslitunum, nema í 2. flokki kvenna, þar sem Íslandsmeistari síðasta árs er komin í 1. flokk og því ekki gjaldgeng í flokknum.
Í meistaraflokki kvenna mætast annars vegar Agnes Brynjarsdóttir, Víkingi og Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir, KR og hins vegar Alexía Kristínardóttir Mixa, BH og Aldís Rún Lárusdóttir, KR.
Í meistaraflokki karla leika Magnús Gauti Úlfarsson, BH og Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, BH. Í hinum leiknum spila Birgir Ívarsson, BH og Ingi Darvis Rodriguez, Víkingi.
Skráðir keppendur eru 155 frá 15 félögum, sem er mun meiri þátttaka en undanfarin ár.
Meðal keppenda er 7 manna fjölskylda, sem öll keppa fyrir KR. Það eru þau Gunnar Skúlason og Guðrún Gestsdóttir og börn þeirra Pétur, Skúli, Gestur, Eiríkur Logi og Guðbjörg Vala. Fjölskyldan hefur þegar tryggt sér fern verðlaun á mótinu. Mynd af fjölskyldunni frá Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur.