Magnús Gauti og Stella Karen Íslandsmeistarar í meistaraflokki
Nýir Íslandsmeistarar voru krýndir í meistaraflokki karla og kvenna á Íslandsmótinu 2018, sem haldið var í TBR-húsinu 3.-4. mars. Magnús Gauti Úlfarsson, BH sigraði í meistaraflokki karla og Stella Karen Kristjánsdóttir, Víkingi í meistaraflokki kvenna. Segja má að kynslóðaskipti hafi orðið á mótinu, því Magnús er fæddur árið 2000 og Stella árið 2001. Sigur þeirra kom nokkuð á óvart en bæði voru þau 4. stigahæsti leikmaðurinn í sínum flokki. Það gerðist síðast árið 1993 að leikmaður, sem ekki var í Víkingi, varð Íslandsmeistari í meistaraflokki karla, en það ár vann Kjartan Briem úr KR.
Aðrir Íslandsmeistarar 2018 eru Davíð Jónsson og Skúli Gunnarsson, KR í tvíliðaleik karla; Aldís Rún Lárusdóttir og Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, KR í tvíliðaleik kvenna, Davíð Jónsson og Aldís Rún Lárusdóttir, KR í tvenndarleik; Ellert Kristján Georgsson, KR í 1. flokki karla, Stella Karen Kristjánsdóttir, Víkingi í 1. flokki kvenna; Óskar Agnarsson, HK í 2. flokki karla og Lára Ívarsdóttir, KR í 2. flokki kvenna. Davíð og Aldís urðu því tvöfaldir meistarar í meistaraflokki og Stella Karen varð meistari í einliðaleik í meistara- og 1. flokki. Það hefur ekki gerst áður, frá því að keppni í 1. flokki kvenna hófst árið 1980, að Íslandsmeistarinn í 1. flokki verði jafnframt Íslandsmeistari í meistaraflokki.
Tvær ungar stúlkur fæddar árið 2006 unnu til verðlauna í meistaraflokki, þær Agnes Brynjarsdóttir, Víkingi í tvíliðaleik kvenna og Sól Kristínardóttir Mixa, BH í tvenndarleik.
Streymt var beint frá leikjum á mótinu, sjá slóðina https://www.youtube.com/watch?v=pkwZerNY5JY .
Úrslit úr einstökum flokkum:
Meistaraflokkur karla
- Magnús Gauti Úlfarsson, BH
- Davíð Jónsson, KR
3.-4. Ingólfur Sveinn Ingólfsson, KR
3.-4. Magnús K. Magnússon, Víkingi
Magnús Gauti lagði Íslandsmeistarann frá því í fyrra, Magnús Kristinn 4-2 í vel leiknum leik. Félagarnir Davíð og Ingólfur úr KR áttust við í hinum undanúrslitunum í hörkuleik og vann Davíð 4-2. Magnús Gauti lék svo betur í úrslitaleiknum og varð Íslandsmeistari með 4-0 sigri á Davíð (11-8, 11-9, 11-9, 11-5).
Meistaraflokkur kvenna
- Stella Karen Kristjánsdóttir, Víkingi
- Berglind Ósk Sigurjónsdóttir, Víkingi
3.-4. Aldís Rún Lárusdóttir, KR
3.-4. Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, KR
Stella Karen lét ekki á sig fá að tapa fyrstu lotunni í úrslitaleiknum 0-11 og vann Berglindi 4-2 í úrslitunum (0-11, 11-9, 7-11, 11-9, 11-8, 11-8) og varð Íslandsmeistari í meistaraflokki kvenna í fyrsta skipti. Í undanúrslitum lagði Stella Aldísi Rún í fyrsta skipti 4-1 en Berglind vann Auði Tinnu 4-0.
Tvíliðaleikur karla
- Davíð Jónsson/Skúli Gunnarsson, KR
- Birgir Ívarsson/Magnús Gauti Úlfarsson, BH
3.-4. Arnór Gauti Helgason/Ársæll Aðalsteinsson, Víkingi
3.-4. Ingi Darvis Rodriguez/Sindri Þór Sigurðsson, Víkingi
Davíð og Skúli töpuðu aðeins einni lotu á leið sinni að titlinum, og hún tapaðist í úrslitaleiknum sem BH-ingunum ungu (11-8, 12-14, 11-9, 11-7). Þetta var fyrsti titill Skúla í einstaklingskeppni í meistaraflokki en Davíð hafði unnið titilinn í tvíliðaleik með Víkingnum Magnúsi Finni Magnússyni árið 2014.
Tvíliðaleikur kvenna
- Aldís Rún Lárusdóttir/Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, KR
- Ásta M. Urbancic/Bergrún Linda Björgvinsdóttir, KR/Dímon
3.-4. Agnes Brynjarsdóttir/Berglind Ósk Sigurjónsdóttir, Víkingi
3.-4. Stella Karen Kristjánsdóttir/Þórunn Ásta Árnadóttir, Víkingi
Til úrslita léku sömu pör og árið 2017, en nú fór leikurinn á annan veg en í fyrra. Aldís og Auður sigruðu 3-0 (12-10, 11-9, 11-4) og tryggðu sér titilinn. Titillinn var sá fyrsti hjá Auði í einstaklingskeppni í meistaraflokki en Aldís varð Íslandsmeistarií tvíliðaleik árið 2016 með Guðrúnu G Björnsdóttur, KR.
Tvenndarkeppni
- Davíð Jónsson/Aldís Rún Lárusdóttir, KR
- Gunnar Snorri Ragnarsson/Ársól Clara Arnardóttir, KR
3.-4. Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson/Ásta M. Urbancic, BH/KR
3.-4. Magnús Gauti Úlfarsson/Sól Kristínardóttir Mixa, BH
Davíð og Aldís vörðu titilinn sem þau unnu í fyrra og urðu Íslandsmeistarar í tvenndarleik í þriðja skipti. Í úrslitum unnu þau Gunnar Snorra Ragnarsson og Ársól Clöru Arnardóttur úr KR 3-0 (11-5, 11-6, 11-9) og töpuðu ekki lotu í tvenndarkeppninni.
1. flokkur karla
- Ellert Kristján Georgsson, KR
- Markus Meckl, Akri
3.-4. Óskar Agnarsson, HK
3.-4. Hlynur Sverrisson, Akri
Ellert var næst stigahæsti leikmaðurinn í flokknum og tapaði aðeins einni lotu. Það var í úrslitaleiknum gegn Markusi, sem fór 3-1 (6-11, 11-6, 11-6, 11-8). Markus vantar á myndina.
1. flokkur kvenna
- Stella Karen Kristjánsdóttir, Víkingi
- Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, KR
3.-4. Ársól Clara Arnardóttir, KR
3.-4. Þórunn Ásta Árnadóttir, Víkingi
Auður átti titil að verja en Stella var sterkari í úrslitaleiknum og sigraði 3-1 í hörkuleik (13-11, 11-9, 11-13, 11-8).
2. flokkur karla
- Óskar Agnarsson, HK
- Örn Þórðarson, HK
3.-4. Adam Miroslaw Sworowski, BH
3.-4. Guðmundur Örn Halldórsson, KR
Það varð tvöfaldur HK-sigur í 2. flokki karla, þar sem Óskar hafði betur gegn Erni í jöfnum leik 3-2 (11-6, 11-8, 6-11, 6-11, 11-8). Adam vantar á myndina.
2. flokkur kvenna
- Lára Ívarsdóttir, KR
- Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir, KR
3.-4. Harriet Cardew, BH
3.-4. Hildur Halla Þorvaldsdóttir, KR
Kristín átti titil að verja en Lára hafði betur í úrslitaleiknum og sigraði 3-1 (11-9, 9-11, 11-6, 11-7). Harriet vantar á myndina.
Úrslit úr öllum leikjum á mótinu má sjá á vef Tournament Software, http://www.tournamentsoftware.com/sport/tournament.aspx?id=E9E2DC79-9A5B-40EE-BCF2-146E85035E7E
Myndir frá Ingimar Ingimarssyni, Má Mixa, Ástu Urbancic, Pétri Stephensen og Ásdísi Geirarðsdóttur.
ÁMU (uppfært 5.3. og 7.3.)