Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Magnús Gauti og Stella Karen sigruðu á Grand prix móti HK

Ungir borðtennismenn voru í sviðsljósinu á Grand prix móti HK, sem fram fór í íþróttahúsinu Fagralundi í Kópavogi 4. nóvember. Aðeins einn átta verðlaunahafa var yfir tvítugu, en það var Auður Tinna Aðalbjarnardóttir. Þetta var fyrsta Grand Prix mót keppnistímabilsins. Keppendur voru 17 í karlaflokki og 6 í kvennaflokki frá Akri, BH, HK, KR og Víkingi. Sýnt var beint frá mótinu á Facebook síðu Borðtennissambands Íslands.

Í karlaflokki mættust nafnarnir Magnús Jóhann Hjartarson úr Víkingi og Magnús Gauti Úlfarsson úr BH í úrslitum en þeim var raðað nr. 3 og 4. Magnús Gauti hafði betur 4-1 (8-11, 11-6, 11-9, 12-10, 11-9) þar sem þrjár síðustu loturnar voru mjög jafnar. Í undanúrslitum lagði Magnús Jóhann Inga Darvis Rodriquez úr Víkingi 4-2 í sex jöfnum lotum. Magnús Gauti vann félaga sinn úr BH Birgi Ívarsson 4-0. Birgir hafði slegið Íslandsmeistarann, Magnús K. Magnússon út í 16 manna úrslitum. Ingi vann næststigahæsta leikmanninn, Csanád Forgács-Bálint úr HK 4-3 í 8 manna úrslitum.

Í kvennaflokki sigraði Stella Karen Kristjánsdóttir úr Víkingi, en hún lagði Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur úr KR í jöfnum leik 11-9 í oddalotu (11-9, 4-11, 11-13, 11-5, 11-7, 9-11, 11-9). Þær unnu báðar undanúrslitaleikina örugglega 4-0. Stella vann Þuríði Þöll Bjarnadóttur úr KR en Auður lagði Sól Kristínardóttur Mixa úr BH.

Í B-keppni karla sigraði André Palma Fonseca úr BH, en hann er frá Portúgal og starfar nú á Íslandi. Hann vann Ísak Indriða Unnarsson úr Víkingi 4-0 (11-8, 11-9, 12-10, 11-5) í úrslitum B-keppninnar. Bræðurnir Eiríkur Logi og Gestur Gunnarssynir úr KR urðu í 3.-4. sæti.

Engin B-keppni fór fram í kvennaflokki.

Mynd af verðlaunahöfum í karlaflokki á forsíðu og mynd af verðlaunahöfum í B-keppninni frá Borðtennisdeild HK.

Úrslit úr öllum leikjum má sjá á vef Tournament Software, http://www.tournamentsoftware.com/sport/tournament.aspx?id=30772CAF-AA76-408C-831F-78386726561F

 

ÁMU

Aðrar fréttir