Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Magnús Jóhann og Nevena Íslandsmeistarar í meistaraflokki

Magnús Jóhann Hjartarson og Nevena Tasic, Víkingi, urðu Íslandsmeistarar í einliðaleik í meistaraflokki á Íslandsmótinu 2022, sem fram fór í Íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði 4.-6. mars.

Nevena varð þrefaldur meistari því hún sigraði í tvíliðaleik kvenna með Stellu Karen Kristjánsdóttur og í tvenndarleik með Inga Darvis Rodriguez, báðum úr Víkingi,

Magnús Jóhann og Ingi Darvis urðu Íslandsmeistarar í tvíliðaleik karla.

Daníel Bergmann Ásmundsson, Víkingi, sigraði í 1. flokki karla, Stella Karen Kristjánsdóttur, Víkingi vann í 1. flokki kvenna. Daníel Hannesson, KR vann 2. flokk karla og Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir, KR í 2. flokki kvenna.

Víkingur vann því sjö titla á mótinu og KR tvo.

Verðlaunahafar

Meistaraflokkur karla

1. Magnús Jóhann Hjartarson, Víkingi   

2. Ingi Darvis Rodriguez, Víkingi

3.-4. Davíð Jónsson, KR

3.-4. Magnús Gauti Úlfarsson, BH

Undanúrslitaleikirnir voru jafnir og spennandi. Nafnarnir Magnús Jóhann og Magnús Gauti mættust í öðrum leiknum en Magnús Gauti átti titil að verja. Magnús Jóhann hafði sigur 4-2 og komst í úrslit í þessum flokki í fyrsta skipti. Í hinum leiknum vann Ingi Darvis Davíð 11-8 í oddalotu eftir að hafa verið 1-3 undir. Leikurinn á milli þeirra félaganna Magnúsar Jóhanns og Inga Darvis var jafn og spennandi og endaði með 11-9 sigri Magnúsar í oddalotu (11-7, 11-5, 9-11, 11-13, 11-9, 6-11, 11-9). Magnús tryggði sér þar með fyrsta titil sinn í meistaraflokki og fagnaði vel.

Meistaraflokkur kvenna

1. Nevena Tasic, Víkingi               

2. Sól Kristínardóttir Mixa, BH   

3.-4. Ársól Clara Arnardóttir, KR               

3.-4. Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir, KR  

Nevena og Sól mættust í úrslitum annað árið í röð og annað árið í röð sigraði Nevena. Hún fór í gegnum mótið án þess að tapa lotu. Hún vann Ársól 4-0 í undanúrslitum en Sól lagði Kristínu 4-1 í hinum undanúrslitaleiknum. Úrslitaleikinn vann Nevena 11-4, 11-6, 11-3, 11-6.           

1. flokkur karla

1. Daníel Bergmann Ásmundsson, Víkingi           

2. Eiríkur Logi Gunnarsson, KR

3.-4. Björgvin Ingi Ólafsson, HK

3.-4. Elvar Pierre Kjartansson, KR       

Daníel hefur nýlega byrjað að keppa aftur eftir nokkurra ára hlé og þetta er fyrsti titillinn hans í einliðaleik á Íslandsmóti. Hann lenti 0-2 undir í úrslitaleiknum gegn Eiríki, en tókst að snúa leiknum við og vinna í oddalotu, 8-11, 7-11, 11-8, 11-6, 11-5.     

1. flokkur kvenna

1. Stella Karen Kristjánsdóttir, Víkingi

2. Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir, KR

3.-4. Ársól Clara Arnardóttir, KR               

3.-4. Þóra Þórisdóttir, KR  

Stella vann Kristínu örugglega 3-0 í úrslitum (11-7, 11-8, 11-7) en þurfti að hafa meira fyrir sigrinum gegnum Þóru í undanúrslitum og Láru Ívarsdóttur í 8 manna úrslitum en hún vann þær báðar í oddalotu. Stella vann líka 1. flokkinn árið 2018.         

2. flokkur karla

1. Daníel Hannesson, KR             

2. Michael May-Majewski, BR  

3.-4. Reynir Georgsson, HK

3.-4. Victor Berzoi, HK

Daníel var raðað nr. 14 í flokknum, og hann lagði Michael, sem var raðað nr. 15 örugglega í úrslitaleik, 11-4, 11-4, 11-8. Daníel hefur nýlega tekið upp spaðann aftur eftir margra ára fjarveru, en hann var Íslandsmeistari í sínum aldursflokki 2005 og 2006.

2. flokkur kvenna

1. Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir, KR

2. Kristjana Áslaug Káradóttir Thors, KR

3.-4. Jóna Elísabet Sturludóttir, KR

3.-4. Sara Elísabet Jónsdóttir, BH

Hin 11 ára Guðbjörg Vala var öruggur sigurvegari í flokknum og tapaði ekki lotu. Hún vann Kristjönu 11-4, 13-11, 11-4 í úrslitunum.

Tvíliðaleikur karla

1. Ingi Darvis Rodriguez/Magnús Jóhann Hjartarson, Víkingi

2. Birgir Ívarsson/Magnús Gauti Úlfarsson, BH

3.-4. Ellert Kristján Georgsson/Gestur Gunnarsson, KR

3.-4. Guðjón Páll Tómasson/Pétur Marteinn Urbancic Tómasson KR/BH

Þeir Ingi Darvis og Magnús Jóhann sigruðu Íslandsmeistara síðustu þriggja ára, Birgi og Magnús Gauta 3-1 (12-10, 10-12, 11-8, 11-7) í úrslitaleiknum og tryggðu sér titilinn í fyrsta skipti.

Tvíliðaleikur kvenna

1. Nevena Tasic/Stella Karen Kristjánsdóttir, Víkingi

2. Lára Ívarsdóttir/Þóra Þórisdóttir, KR

3.-4. Aldís Rún Lárusdóttir/Guðrún G Björnsdóttir, KR

3.-4. Ársól Clara Arnardóttir/Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir, KR   

Nevena varði titilinn sem hún vann með Agnesi Brynjarsdóttur í fyrra, en Stella varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik í fyrsta skipti. Þær sigruðu örugglega 3-0 (11-8, 11-6, 11-3) í úrslitaleiknum og fóru í gegnum mótið án þess að tapa lotu.        

Tvenndarleikur

 1. Ingi Darvis Rodriguez/Nevena Tasic, Víkingi

2. Magnús Gauti Úlfarsson/Sól Kristínardóttir Mixa, BH

3.-4. Davíð Jónsson/Aldís Rún Lárusdóttir, KR

3.-4. Magnús Jóhann Hjartarson/Stella Karen Kristjánsdóttir, Víkingi

Þau Nevena og Ingi Darvis vörðu titilinn, sem þau unnu í fyrsta skipti í fyrra. Þau lentu 0-2 undir í úrslitaleiknum en sigruðu á endanum í oddalotu, 7-11, 6-11, 11-6, 11-7, 11-2.

Myndir frá Ingimar Ingimarssyni, nema forsíðumyndin.

Aðrar fréttir