Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Magnús Kristinn og Guðrún Íslandsmeistarar í meistaraflokki

Verðlaunahafar í meistaraflokki karla (Mynd: Finnur Hrafn Jónsson).

Magnús Kristinn Magnússon úr Víkingi og Guðrún G Björnsdóttir úr KR sigruðu í einliðaleik í meistaraflokki á Íslandsmótinu, sem fram fór í TBR-húsinu um helgina. Þetta var fyrsti titill Magnúsar í einliðaleik en fimmti titill Guðrúnar. Hún sigraði síðast árið 2009. 

Magnús varð tvöfaldur meistari,  því hann sigraði einnig í tvenndarleik, þar sem hann lék með Lilju Rós Jóhannesdóttur úr Víkingi. Lilja Rós sigraði líka tvöfalt, því hún varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik með Evu Jósteinsdóttur. 

Óvæntustu úrslitin komu í tvíliðaleik karla, þar sem Davíð Jónsson úr KR og Magnús Finnur Magnússon úr Víkingi sigruðu.

Skúli Gunnarsson úr KR sigraði í 1. flokki karla og Eyrún Elíasdóttir úr Víkingi í 1. flokki kvenna. Hörður Birgisson úr Víkingi varð Íslandsmeistari í 2. flokki karla og Guðrún Gestsdóttir úr KR (móðir Skúla) vann í 2. flokki kvenna. 

Skráðir keppendur voru 104 frá Akri, BH, Dímon, Erninum, HK, ÍFR, KR, Nesi og Víkingi. Víkingur fékk flesta titla eða 5,5 en KR fékk 3,5 titla. KR-ingar fengu flest verðlaun eða 18 talsins af þeim 36 sem keppt var um. Auk KR og Víkings fengu keppendur frá BH, HK og Dímon verðlaun á mótinu.

ÁMU (uppfært 3.3.)

Aðrar fréttir