Magnús og Nevena sigruðu á Grand Prix móti KR og Keldunnar
Magnús Jóhann Hjartarson og Nevena Tasic, bæði úr Víkingi, sigruðu á Grand Prix móti KR og Keldunnar, sem fram fór í Íþróttahúsi Hagaskóla 5. október. Þetta var fyrsta mótið í Grand Prix mótaröð BTÍ keppnistímabilið 2019-2020.
Magnús sigraði Skúla Gunnarsson, KR í jöfnum og spennandi leik 4-3 (9-11, 5-11, 11-6, 12-10 12-10, 5-11, 12-10) þar sem Skúli var með leikbolta í oddalotunni. Magnús gafst ekki upp og knúði fram sigur í framlengdri oddalotu.
Í undanúrslitum vann Magnús Ellert Kristján Georgsson, KR sömuleiðis 12-10 í oddalotu, en Ellert var yfir 3-1 þegar fjórar lotur höfðu verið leiknar. Skúli lagði Eirík Loga Gunnarsson, KR, bróður sinn 4-0 í hinum undanúrslitaleiknum.
Í kvennaflokki sigraði Nevena Agnesi Brynjarsdóttur úr Víkingi 4-1 (11-8, 11-3, 11-13, 11-5, 11-1) í úrslitaleiknum. Í undanúrslitum vann Nevena Lóu Floriansdóttur Zink, Víkingi 4-1 en Agnes vann Söndru Dís Guðmundsdóttur, BH 4-0 í hinum undanúrslitaleiknum.
Í B-keppni karla sigraði Gestur Gunnarsson, KR og Sól Kristínardóttir Mixa, BH vann B-keppni kvenna.
Rafland og Ísbúð Vesturbæjar gáfu vinninga á mótið.
Myndir frá Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur.