Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Nokkrir íslenskir sigrar á Norges cup

Íslensku keppendurnir á Norges cup hófu keppni í dag en flest þeirra leika í fleiri en einum flokki á mótinu. Leikið er í Lørenskog höllinni í útjaðri Oslóar.

Auk landsliðsfólksins leika KR-ingarnir Ellert Kristján Georgsson og Gestur Gunnarsson einnig á mótinu, en þeir eru við æfingar hjá BTK Rekord í Helsingborg í Svíþjóð.

Laugardaginn 13. nóvember var m.a. leikið í úrvalsflokkum karla og kvenna (elite) og í ungmennaflokki kvenna (eldre junior). Leikið er í riðlum og síðan komast efstu leikmennirnir í riðlunum í útsláttarkeppni.

Magnús Gauti Úlfarsson vann alla þrjá leikina í sínum riðli í úrvalsflokki karla. Hann mætti Martin Frøseth frá Tingvoll BTK í útsláttarkeppninni og tapaði 0-3. Ingi Darvis Rodriguez vann tvo leiki af þremur í sínum riðli en tapaði þriðja leiknum í oddalotu. Hann tapaði 1-3 fyrir Magnus B. Holm frá Nidaros BTK í útslættinum. Þeir félagar luku keppni í 17.-28. sæti í þessum flokki.

Magnús Jóhann Hjartarson, Ellert Kristján Georgsson og Gestur Gunnarsson töpuðu sínum leikjum en allir unnu þeir lotur.

Þær Sól Kristínardóttir Mixa og Stella Karen Kristjánsdóttir unnu hvor sinn leikinn í riðlakeppninni í úrvalsflokki kvenna. Þær urðu í þriðja sæti í sínum riðlum og komust ekki í útsláttarkeppnina. Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir tapaði sínum leikjum en vann lotu.

Sól Kristínardóttir Mixa vann leik í ungmennaflokki kvenna og varð í 2. sæti í sínum riðli. Hún tapaði svo 0-3 í útsláttarkeppninni fyrir Filippu Skjøld-Hinze frá Fokus BTK, sem varð í 2. sæti í flokknum, og hafnaði í 5.-8. sæti skv. niðurstöðum á vef mótsins. Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir og Stella Karen Kristjánsdóttir töpuðu sínum leikjum en unnu lotur.

Sunnudaginn 14. nóvember leika íslensku leikmennirnir í flokkum herre B, herre eldre junior, dame junior og jenter 15.

Hér má fylgjast með úrslitum á mótinu: http://resultat.ondata.se/000801/

Forsíðumynd af Sól úr myndasafni.

Aðrar fréttir