Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Nýr þjálfari hjá BH og HK

Sigurður Valur Sverrisson með nýjum þjálfara BH og HK, Jan Ove Waldner.

Margfaldur Heims- og Ólympíumeistari Jan Ove Waldner frá Svíþjóð sem margir kalla „The Mozart of Table Tennis“ og Kínverjar „The Evergreen Tree“ hefur tekið að sér þjálfun hjá Borðtennisfélagi Hafnarfjarðar og borðtennisdeild HK.  Mun hann starfa á Íslandi til loka árs 2013 og á þeim tíma einnig halda æfingabúðir fyrir önnur félög og þjálfaranámskeið á vegum BTÍ.

Samningar náðust við nýjan þjálfara á Heimsmeistaramótinu í liðakeppni sem fram fer nú í Dortmund, Þýskalandi.  Verður Waldner, sem nú er einn af útbreiðslufulltrúum ITTF, framlag ITTF á næsta ári til Íslendinga.  Waldner mun ekki hafa fastan dvalarstað heldur  mun hann gista hjá borðtennisfólki á Íslandi.  Bjarni Þ Bjarnason landsliðsþjálfari mun hýsa hann fyrst um sinn.  Þeir sem áhuga hafa á því að hýsa Waldner eru beðnir um að hafa samband við stjórnarmenn BTÍ.

Aðspurður hvers vegna hann hefur ákveðið að koma til Ísland sagði Waldner: „Ég hef alltaf hrifist af Íslandi, náttúrunni þar, fólkinu, matnum og menningunni.  Hefur það lengi verið á dagskránni hjá mér að dvelja þar um nokkurn tíma.  Það hefur verið langþráður draumur minn að spila leik á toppi Snæfellsjökuls og hefur mér verið sagt að íslenskir borðtennismenn muni aðstoða mig við það.  Svo ætla ég að nota tækifærið á Íslandi og rækta gott yfirvaraskegg.“

Waldner er hvalreki fyrir borðtennisstarfið á Íslandi.  Hann kemur til landsins ásamt íslenska landsliðinu í dag kl. 16.00 og heldur fyrstu æfinguna í HK kl. 19.00.  Æfingin verður opin og eru allir áhugasamir hvattir til að mæta.

Aðrar fréttir