Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Nýr vefur Borðtennissambands Íslands

Nýr vefur Borðtennissambandsins hefur litið dagsins ljós en tilefni þess að farið var í að hanna og smíða nýjan vef er 50 ára afmæli BTÍ þann 12. nóvember 2022.

Við vonum að iðkendur og aðrir notkendur vefsins fagni tilkomu nýs vefs sem stjórn BTÍ telur mikið framfaraskref. Með nýjum vef gefst færi á að kynna borðtennisíþróttina betur fyrir almenningi, fjölmiðlum og öðrum áhugasömum. Ekki síst lítum við á vefinn sem þjónustu við núverandi iðkendur með öflugri fréttamiðlun, aðgengilegri dagskrá, mótaskrá, aðgengi að styrkleikalista, auk margs konar fróðleiks og upplýsinga um starfsemi BTÍ.

Meðal nýjunga er bætt framsetning á fréttum, einnig er hægt að leita sérstaklega í fréttum og sía eftir tímabilum. Leitin á vefnum er öflugri en áður. Framsetning á mótaskrá er aðgengilegri og notendur geta bætt viðburðum inn í sitt dagatal með einföldum hætti.

Upplýsingar um aðildarfélög og hvar hægt sé að stunda borðtennis um allt land er sett fram með aðgengilegum hætti m.a. með landakorti. Við bjóðum upp á öflug myndasöfn sem félagar hafa látið okkur í té og við þökkum þeim Ingimundi Ingimundarsyni og Finni Hrafni Jónssyni kærlega fyrir að heimila okkur birtingu þeirra og notkun á vef og samfélagsmiðlum.

Aðgengi að lögum, reglugerðum, eyðublöðum og sögu BTÍ er einnig gott.

Að lokum má nefna að hægt er að þýða efni vefsins á ensku og pólsku með einföldum hætti en jafnframt með fyrirvara um áreiðanleika þýðingar þar sem stuðst er við vélræna þýðingu Google translate.

Avista sá um hönnun og forritun vefsins auk þess að hýsa hann. Við þökkum þeim kærlega fyrir samstarfið. Umsjón með verkefninu af hálfu BTÍ hafði Sigurjón Ólafsson sem hafði aðra stjórnarmenn sér til halds og traust og sérstaklega má nefna Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur og Ingimar Ingimarsson.

Aðrar fréttir