Opið hús hjá nýrri borðtennisdeild Leiknis 3. febrúar
Í janúar 2023 og desember 2024 hóf Borðtennissamband Íslands samstarf við íþróttafélagið Leikni um að hefja borðtennisstarf í Efra-Breiðholti. Föstudaginn 5. janúar funduðu fulltrúar sambandsins með starfsfólki Reykjavíkurborgar í Suðurmiðstöð Breiðholts og kom í ljós að borgin vildi hafa milligöngu um að æfingar mættu vera í Fellaskóla, þar sem þrjú borð eru nú þegar, auk þess að vilja styrkja við upphaf verkefnisins fjárhagslega.
Á laugardaginn kl. 15 fer starfið af stað með opnu húsi í Fellaskóla og þjálfarar fyrstu mánuðina verða Eyrún Elíasdóttir, Magnús Jóhann Hjartarson og Elvar Kjartansson sem hafa öll reynslu af þjálfun barna og ungmenna. Æfingatafla verður birt innan skamms en æfingarnar eru ca. kl. 14:30 á miðvikudögum, kl. 14 á föstudögum og fjölskylduæfing kl. 15 á laugardögum (90 mín hver). Ókeypis verður að æfa í febrúar og hóflegt æfingagjald verður innheimt að því loknu.
Árið 2017 gerði Reykjavíkurborg könnun á því hvaða íþróttir íbúar í Efra-Breiðholti vildu helst stunda, m.a. vegna þess að íþróttaiðkun barna í borginni er einna minnst í því hverfi (aðeins um 22% og má bæta) og var borðtennis ein af fimm vinsælustu íþróttunum. Því vill Borðtennissambandið endilega styðja við að starf fari af stað í þessu fjölmenna hverfi.
Borðtennissambandið og útbreiðslunefnd þess hvetur borðtennisfólk til að láta orðið berast og hlakkar til að styðja frekar við þetta spennandi starf.