Reglugerð um flokkakeppni uppfærð
Reglugerð um flokkakeppni hefur verið birt á vef Borðtennissambands Íslands. Helstu breytingar eru eftirfarandi:
Í mars 2019 var á stjórnarfundi samþykkt að bæta við eftirfarandi málsgrein við sem nýrri 7. mgr. 2. gr., í samræmi við framkvæmd:
„Í unglingaflokkum er félögum heimilt að tefla fram sameiginlegum liðum, með það að markmiði að fleiri lið og fleiri leikmenn geti tekið þátt í keppninni.“
Einnig var stafsetning reglugerðarinnar lagfærð.
Á stjórnarfundi 8. október sl. var samþykkt að gera breytingu á málsgrein um úrslitakeppni 1. deildar karla og kvenna í samræmi við það sem kynnt var á formannafundi ársins, þ.e. að leikinn yrði einn undanúrslitaleikur á laugardegi (í stað tveggja viðureigna á síðasta keppnistímabili) og einn úrslitaleikur (líkt og á síðasta keppnistímabili).
Þá var ákvæði um úrslitakeppni í 1. deild kvenna breytt svo að leikin verða undanúrslit ef 5 eða fleiri lið keppa í deildinni (í stað sex liða áður).
Ákvæði um leik milli 5. sætis liðsins í 1. deild karla og 2. sætis liðsins í 2. deild karla var fjarlægt úr reglugerðinni.
Loks var ákvæði um frestun leikja stytt verulega vegna bættrar framkvæmdar í þeim málum. Hljóðar ákvæðið nú svo:
„Mótanefnd getur veitt samþykki á breyttum leikdegi ef rík ástæða er til (svo sem vegna þátttöku landsliða í heims- eða Evrópumótum) og öll lið eru því samþykk. Slík breyting skal gerð með minnst 14 daga fyrirvara.“