Reglugerðarbreytingar um Íslandsmót o.fl.
Stjórn BTÍ samþykkti eftirfarandi reglugerðarbreytingar á síðasta stjórnarfundi sínum 5. janúar sl. Uppfærðar reglugerðir verða settar inn nk. helgi (þegar betri tími gefst) undir undirsíðunni um reglugerðir.
1. Ný regla um að óvirkir leikmenn þurfi ekki að leyfi fyrra félags til að keppa fyrir nýtt félag
Samþykkt var viðbót við 5. gr. keppnisreglna (tillaga frá Ástu Melittu Urbancic frá síðasta ársþingi).
Núverandi 5. grein.
Leikmaður getur skipt um félag einu sinni á leikári. Félagaskiptin tilkynnist mótanefnd BTÍ á þar til gerðu eyðublaði sem beri með sér að leikmaður sé skuldlaus við fyrra félag eða með tölvupósti til mótanefndar og fyrra félags þar sem skuldleysið er staðfest. Félagaskiptin taka gildi þann dag sem formaður mótanefndar undirritar eyðublaðið eða staðfestir móttöku tölvupóstsins
Við bætist:
Leikmenn sem snúa aftur til keppni af óvirka styrkleikalistanum þurfa ekki að tilkynna félagaskipti, þótt þeir keppi fyrir nýtt félag.
Röksemdafærsla:
Leikmenn eru teknir út af virka styrkleikalistanum á vefnum eftir að um þrjú ár eru liðin frá því að þeir kepptu síðast. T.d. eru keppendur sem kepptu síðast árið 2021 teknir út af virka listanum vorið eða sumarið 2025. Núna eru engin tímamörk á því hverjir þurfa að tilkynna félagaskipti og hverjir ekki en það er æskilegt að einhver viðmið séu til um það.
2. Sjö leikja fyrirkomulag í úrslitakeppni og umspili í deildarkeppni
Aftast í 12. gr. reglugerðar um flokkakeppni sem fjallar um úrslitakeppnina bætist við eftirfarandi texti, en fyrirkomulagið hefur verið rætt nokkuð milli mótanefndar og ýmissa forsvarsmanna félaga. Uppstilling fyrirkomulagsins er í samræmi við útfærslu í handbók ITTF.
Úrslitakeppnin og umspilsleikir sömuleiðis, skulu leiknir með eftirfarandi fyrirkomulagi:
Sjö leikja kerfi
1) A v X
2) B v Y
3) C v Z
4) Tvíliðaleikur
5) A v Y
6) C v X
7) B v Z
Í fyrirkomulaginu eru leiknir allt að 7 leikir í viðureign, fyrst 3 einliðaleikir, svo tvíliðaleikur og að lokum 3 einliðaleikir. Þrír til fimm leikmenn leika hverja viðureign. Þrír sömu leikmenn spila alla einliðaleikina en frjálst er að velja hvern sem er úr fimm manna liði í tvíliðaleikinn. Liðið sem fyrr sigrar 4 leiki vinnur viðureignina. Engar breytingar eru leyfðar á niðurröðun eftir að viðureignin er hafin.
3. Hve margir keppendur þurfa að mæta til leiks í deildarkeppni
Eftirfarandi setning verður færð aftast í viðkomandi grein sem eigin málsgrein í reglugerð um flokkakeppni svo innihaldið gildi um alla leiki en ekki bara í efstu deild. Sú breyting átti sér stað fyrir mistök.
Lið telst mætt til leiks, í öllum deildum sem gera ráð fyrir þriggja manna liðum, séu tveir leikmanna mættir.
4. Íslandsmót fatlaðra fari inn á styrkleikalista
Hér þarf að breyta tvennu, reglugerð um styrkleikalista um vægi 3 og reglugerð um Íslandsmót. Er þróun þessi í samræmi við áherslur í borðtennis fatlaðra á alþjóðavísu, áherslur BTÍ og aukið samstarf við ÍF.
Bætt verður við í reglugerð um styrkleikalista:
“, fatlaðra” (í vægi 3)
Bætt verður við í reglugerð um Íslandsmót, sem næstneðstu mgr.:
Heimilt er BTÍ að halda Íslandsmót fatlaðra í samvinnu við Íþróttasamband fatlaðra (ÍF). Sé það gert skal BTÍ gæta þess að mótið samræmist keppnisreglum Alþjóða borðtennissambandsins (ITTF), sé auglýst með sama hætti og önnur Íslandsmót á heimasíðu BTÍ og stuðla að góðri og formlegri keppnisumgjörð. Skal mótið þá hafa gildi á styrkleikalista BTÍ, í samræmi við reglugerð um styrkleikalista.
5. Riðlakeppni á Íslandsmóti fullorðinna og sama mót á tveimur helgum
Íslandsmót fullorðinna verður á 2 helgum og allur einliðaleikur settur í riðla.
Sambærilegur texti frá því í fyrra verður uppfærður í reglugerð um Íslandsmót:
Á Íslandsmótinu 2026 skal þó keppt í riðlum í einliðaleik í öllum einliðaleiksflokkum með eftirfarandi hætti:
– Taki fimm eða færri leikmenn þátt í flokki skal leikið með beinum útslætti líkt og fyrr.
– Taki sex eða fleiri leikmenn þátt í flokki skal keppt í þriggja manna riðlum (og einum til tveimur fjögurra manna riðlum gangi leikmenn af) þar sem tveir leikmenn komast áfram og beinum útslætti að því loknu.
– Í meistaraflokki karla og kvenna skulu þeir leikmenn sem hljóta röðun skv. 17. gr. keppnisreglna BTÍ sleppa við riðlakeppni og komast beint áfram í útsláttinn, séu 33 leikmenn eða fleiri skráðir til leiks í flokknum.
– Að öðru leyti skal raða einum leikmanni í hvern riðil keppninnar í meistaraflokki (dæmi: 8 riðlar = 8 leikmenn fá röðun).
Þá skulu 1. og 2. flokkar karla og kvenna leiknir á sér keppnishelgi árið 2026.
Uppfært með viðbót 24.1.2026


