Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Reglugerðir BTÍ uppfærðar

Á stjórnarfundi Borðtennissambands Íslands þann 7. maí 2017 var ráðist í það verk að uppfæra reglugerðir á heimasíðu sambandsins í kjölfar vinnu sem leidd var af ritara BTÍ Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur.   Reglugerðirnar eru aðgengilegar hér.

Vakin hafði verið athygli stjórnar sambandsins á því að ekki væru allar reglugerðir í samræmi við breytingar sem hefðu verið gerðar á ársþingum sambandsins undanfarin ár, t.d. varðandi aldursflokka á mótum svo sem Íslandsmóti öldunga. Stjórnarmeðlimum þykir jákvætt og mikilvægt að uppfæra reglugerðirnar með þeim breytingum sem hafa verið samþykktar á ársþingum undanfarin ár, enda eru það breytingar sem borðtennisfólk hefur lagt sig fram við að gera og hafa verið samþykktar með góðri samstöðu. Þá eru birtar og skýrar reglugerðir að sjálfsögðu mikilvægar starfi hreyfingarinnar.

Farið var yfir breytingar frá aukaþingi BTÍ frá 2009 og ársþingum frá þeim tíma til dagsins í dag (2011, 2013, 2014 og 2016) og farið yfir hvaða samþykktu breytingar vantaði í reglugerðirnar á heimasíðu sambandsins. Ekki var lögð áhersla á að fara yfir fundargerðir eldri stjórna til þess að leita að reglugerðarbreytingum sem kunna að hafa verið gerðar en voru ekki birtar í reglugerðunum á vefsíðu sambandsins og ekki er áætlað að leita síðar að slíkum hugsanlegum breytingum (nema varðandi reglugerð um styrkleikalistann, sjá hér rétt að neðan).

Þær breytingar sem fundust og voru gerðar í samræmi við þetta voru eftirfarandi:

Reglugerð um styrkleikalista hefur verið birt á vefnum en hana hafði lengi vantað. Breytingar frá aukaþingi BTÍ frá 2009 voru settar inn í hana. Farið verður í endurskoðun á 6. gr. reglugerðarinnar fljótlega, þar sem ljóst þykir að mikilvægar eldri breytingar sem fylgt er í framkvæmd vanti þar.

Keppnisreglur, reglugerð um Íslandsmót og reglugerð um Grand prix mót, voru uppfærðar vegna sama aukaþingi BTÍ frá 2009.  Allar breytingar þingsins voru settar inn í reglugerðir BTÍ nema þær sem sneru að tveimur atriðum sem stjórnin hefur tekið sérstaka ákvörðun um í vetur, þ.e. niðurfellingu 19-21 árs flokks á unglingamótum og lágmarksþátttöku í flokka á Íslandsmótum.

Reglugerð um aldursflokkamótaröð og styrkleikalistann voru uppfærðar í samræmi við fundargerð ársþings 2013.

Reglugerð um Grand prix mót og aldursflokkamót voru uppfærðar í samræmi við fundargerð ársþings 2014.

Að auki voru gerðar þrjár sjálfstæðar breytingar. Sú fyrsta var að bæta við ákvæði um tvenndarleik á Íslandsmóti öldunga í reglugerð um Íslandsmót. Sú breyting var í samræmi við tillögu sem sett var fram á ársþingi árið 2014 og hafði verið vísað til stjórnar og hafði notið góðs stuðnings á fundinum. Önnur breytingin var á sömu reglugerð og kom frá stjórn um það að ef þrjú pör eru skráð til leiks í tvíliða- eða tvenndarleik á Íslandsmóti öldunga eða unglinga skuli leikið í riðli í stað útsláttarfyrirkomulags. Þriðja breytingin sneri að því að setja inn í reglugerðir um Grand Prix mót og aldursflokkamót að hlutkesti um röðun varamanna á lokamót þeirra móta fari fram áður en mætt er á mótið, svo varamenn viti að þeir séu næstir inn ef til forfalla kemur. Þessi breyting er í samræmi við framkvæmdina undanfarin ár.

Þá er vakin athygli á því að frekari breytingar verða gerðar á nýrri reglugerð um flokkakeppni á næsta fundi stjórnarinnar, í samræmi við fyrri tilkynningar í vetur. Farið verður vandlega yfir þær breytingar og eru ábendingar, sem fyrr, velkomnar til stjórnar.

Aðrar fréttir