Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Sindre Åteigen ráðinn landsliðsþjálfari

Borðtennissamband Íslands hefur ráðið hinn norska Sindre Åteigen sem landsliðsþjálfara Íslands í borðtennis.

Sindre tók til starfa 1. ágúst 2025 og mun hann vera með æfingabúðir fyrir A-landsliðið og unglingalandsliðið mánaðarlega á Íslandi á keppnistímabilinu 2025-2026 – auk heimsókna í félög þegar hann mætir. Veturinn 2026-2027 mun hann flytjast til Íslands og þjálfa hérlendis, með það að markmiði að styðja við innlend félög og stuðla að uppbyggingu íslensks borðtennis auk landsliðanna. Þá kveðst hann mjög áhugasamur um að styðja við þjálfara sem starfa fyrir íslensk félög.

Veturinn 2025-2026 mun Sindre njóta aðstoðar innlendra þjálfara með föstudagsæfingar landsliða sem hafa gefið góða raun undanfarin tvö ár. Verður tilkynnt um það fyrirkomulag innan tíðar.

Sindre Åteigen hefur víðtæka reynslu úr borðtennisheiminum, bæði sem yfirþjálfari B-72 í Osló frá árinu 2009, sem hefur falið í sér mikla uppbyggingarstarfsemi, og í störfum fyrir norska unglingalandsliðið í árafjöld.
Á ferlinum hefur hann þjálfað efnilega leikmenn eins og t.d. Rebekku Carlsen og Rikke Skåttet, sem komust í 9. sæti í einliðaleik á EM unglinga og Sonju Obradovic sem var á lista yfir 250 bestu konur í heimi. Þá er hann íslensku borðtennisfólki kunnur sem þjálfari Vivian Huynh sem var deildarmeistari í efstu deild kvenna hérlendis með BH 2023-2024 og Íslandsmeistari liða 2024-2025. Þá kom hann einnig í jólaæfingabúðir hjá KR með stóran hóp norskra leikmanna árið 2018 og hefur fylgst með íslenskum borðtennis síðan hann og Guðmundur Stephensen kepptu saman fyrir B72 í Noregi á árunum 2003-2005.

Um ráðninguna segir Sindre: „First, I would like to thank the Icelandic Table Tennis Association for the trust. I’m really looking forward to getting started in Iceland. I already know a few people on the team and have only had positive impressions so far. I am really excited for the challenges ahead — and especially for our first gathering in August.“

Komandi keppnisferðir

Þegar hefur verið samið um að Sindre fari með A-landsliðinu og unglingalandsliðinu í eftirfarandi ferðir (og eru frekari ferðir í skoðun):

  • Finlandia Open með A-landsliðinu í desember
  • Mót í Linz með unglingalandsliðinu um páskana 2026
  • EM unglinga í júlí 2026 í Gondomar í Portúgal

Sindre tekur við starfinu af Peter Nilsson, sem hefur sinnt því frá árinu 2021 og var nýverið útnefndur heiðursfélagi BTÍ fyrir framlag sitt til íslensks borðtennis. BTÍ ítrekar þakkir til Peters fyrir vel unninn störf og býður Sindre velkominn til starfa.

Frétt uppfærð 8. ágúst 2025

Aðrar fréttir