Styrkleikalisti fyrir 1. nóvember birtur til bráðabirgða
Styrkleikalisti fyrir 1. nóvember 2023 (kallaður eftir viku 44) hefur verið birtur á vefnum, með fyrirvara um réttar skráningar. Listinn er birtur til bráðabirgða, þar sem enn vantar úrslit úr byrjendaflokki á Pepsi móti Víkings 14. október inn á listann. Listinn verður uppfærður þegar þessi úrslit hafa borist.
Við þessa uppfærslu hafa opna- og aldursflokkamót BH 7. október, Pepsimót Víkings 14. október (nema byrjendaflokkur), aldursflokkamót Dímonar 28. október og leikir í deildakeppni karla þann 1. október og 21.-22. október verið lesin inn í styrkleikalistann.
Í október gerðist það m.a. að Þorbergur Freyr Pálmarsson, BH, komst upp í meistaraflokk í fyrsta skipti.
Tveir leikmenn voru metnir inn á listann vegna árangurs í leikjum í október, þeir Mattia Contu, BM og Volodymyr Cherniavskyi, ÍFR. Þrír leikmenn komu aftur inn á virka listann af óvirka listanum.
Til að skoða styrkleikalistann er valinn flipinn Styrkleikalisti efst á þessari síðu, og er þá hægt að skoða listann og fletta upp einstökum leikmönnum og þeim leikjum sem telja á listanum. Talan fjöldi móta, fyrir aftan hvern leikmann, telur ekki með leiki í deildarkeppninni.
Ef eitthvað er vitlaust skráð, vinsamlegast hafið samband við Ástu, [email protected].
Forsíðumynd tekin af fésbókarsíðu BTÍ.