Sumaræfingar íslenskra borðtennismanna erlendis – Magnús Hjartarson og Ingi Darvis
Borðtennismennirnir Magnús Hjartarson og Ingi Darvis voru þessa vikuna í æfingum í Eslöv í Svíþjóð. Hafa borðtennismenn og konur verið dugleg í sumar að sækja æfingar erlendis en t.d. hafa Magnús Gauti Úlfarsson og Birgir Ívarsson sótt æfingar í Eslöv, Ellert Georgsson í Noregi, Gestur Gunnarson, Harriet Cardew, Sól Kristínardóttir Mixa, Alexía Kristínardóttir Mixa og Mímir Kristínarson Mixa hjá B75 í Danmörku.
Langt er síðan svo margir leikmenn hafa sótt æfingar erlendis og verður slagurinn harður á komandi vetri enda margir metnaðarfullir leikmenn sem munu vilja sýna hvað í þeim býr.
Vikan var viðburðarrík hjá þeim Magnúsi Jóhanni Hjartarsyni og Inga Darvis en frá mánudeginum til föstudags voru þeir í æfingabúðum sem sænski þjálfarinn Peter Sartz stýrði (Peter er frábær þjálfari sem m.a. var þjálfari Michael Maze og í dag Truls Moregard og margra sænsku landsliðskvennanna). Í þeim búðum voru einnig leikmenn frá Írlandi og Danmörku. Á laugardaginn og sunnudaginn æfðu þeir síðan einnig með sænska kvennalandsliðinu.
Hér að neðan er hópmynd af þeim leikmönnum sem þátt tóku í æfingabúðunum.