Sveinn Áki fyrsti formaður BTÍ gerður að heiðursfélaga ÍSÍ
Á Íþróttaþingi ÍSÍ sem fór fram um helgina voru nýir heiðursfélagar ÍSÍ heiðraðir og á meðal þeirra var Sveinn Áki Lúðvíksson, fyrsti formaður Borðtennissambands Íslands og fyrsti formaður Borðtennisdeildar KR. Sveinn Áki var formaður Íþróttasambands fatlaðra frá 1996-2017.
Í umsögn ÍSÍ þegar Sveinn Áki var gerður að heiðursfélaga kom eftirfarandi fram:
Sveinn Áki Lúðvíksson (ÍF/BTÍ)
Sveinn Áki var formaður Íþróttasambands fatlaðra árin 1996-2017 eða samfellt í 21 ár. Hann hóf sinn leiðtogaferil innan borðtennisíþróttarinnar. Hann var fyrsti formaður borðtennisdeildar KR og þegar Borðtennissamband Íslands var stofnað árið 1972 var hann kjörinn fyrsti formaður sambandsins. Hann gegndi því embætti um árabil. Hann var kjörinn í varastjórn Íþróttasambands fatlaðra 1982 og síðar sem stjórnarmaður allt til ársins 1996 er hann var kjörinn formaður. Sveinn Áki hlaut barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna árið 2010 fyrir öflugt starf í þágu ungmenna. Sveinn Áki er handhafi riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu. Sveinn Áki var sæmdur Heiðurskrossi ÍSÍ árið 2017 og það sama ár var hann gerður að heiðursfélaga Íþróttasambands fatlaðra.
Stjórn BTÍ óskar Sveini Áka innilega til hamingju með heiðursútnefninguna og þakkar fyrir það frumkvöðlastarf sem hann vann innan borðtennisíþróttarinnar.
Meðfylgjandi mynd sýnir Andra Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, og Lárus L. Blöndal, forseta ÍSÍ, afhenda Sveini Áka viðurkenningu sína. Mynd fengin af vef ÍSÍ.