Þjálfaranámskeiðið með Neven Cegnar 21-24. september 2017
Þjálfaranámskeið á vegum BTÍ í samvinnu við ETTU sem endaði með æfingu cadet og junior fór fram á í æfingaraðstöðu BH Hafnarfirði og æfingaraðstöðu HK í Kópavogi dagana 21.-24. september sl. undir styrkri stjórn Neven Cegnar frá Króatíu. Á námskeiðinu tóku þátt 34 íslenskir þjálfara og leikmenn.
Þjálfun getur farið fram með ýmsum hætti. Það á sérstaklega við um borðtennis þar sem sumir leiða með því að sýna, aðrir af sannfæringu og jákvæðni og enn aðrir með styrkri hendi og stjórn. Hvað sem líður stíl þjálfara þá verður hann að hafa styrkan grunn sem hann getur byggt á.
Í fyrsta fyrirlestri sínum sem fram fór á fimmtudeginum 21. september ræddi Neven Cegnar um nýju plastkúluna og hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir mismunandi borðtennisstíla. Hann fór yfir mikilvægi þess að hafa skipulag á æfingum og mikilvægi þess að nálgast ólíka leikmenn með mismunandi hætti. Það sem kunni að henta einum þurfi alls ekki að henta öðrum. Einnig fór hann yfir ólíkt skipulag æfinga fyrir unga byrjendur þar sem grunnurinn er byggður og æfingar afreksefna og hvernig væri hægt að auka getu leikmanna með kúluæfingum. Umræður fóru fram um mismunandi æfingaraðferðir í kjölfarið.
Í öðrum fyrirlestri sínum sem fram fór föstudaginn 22. september kafaði Neven Cegnar dýpra í þróun leikmanns frá ungum byrjanda í afreksefni og að lokum afreksmann/konu (technical skills progression scale). Hann fór yfir ábyrgð þjálfara hvers hlutverk er að búa til tengsl við leikmenn og nýta þá glugga sem skapast fyrir aukna þjálfun. Hvenær tímabært sé að hefja þrek- og snerpuþjálfun og mikilvægi þess að velja hentug mót fyrir leikmenn. Hver sé besti æfingafjöldi leikmanna frá byrjanda til afreksmanns. Mikilvægi þess að þjálfari sé rólegur í tjáskiptum og góður hlustandi og að hann leiti sér þekkingar og skýringa hjá öðrum þegar hann er í vafa. Einnig ræddi Neven Cegnar um það hverjar æfingar væru mikilvægar í þrek og snerpuþjálfun, t.d. til að mæta hraðabreytingum, til að halda jafnvægi í mismunandi aðstæðum, til að bregðast hratt við mismunandi áreiti/skilaboðum úr umhverfinu og hraða færslu fram, aftur og til hliðanna. Í lok fyrirlestursins var horft á heimildarmyndina Tamara sem fjallar um leikmannaferil Tamara Boros frá Króatíu frá unga aldri til dagsins í dag. Fyrir þá sem vilja kynna sér heimildarmyndina þá er hún aðgengileg á Youtube hér.
á laugardeginum 23. september var æfing í HK Fagralundi með cadet og junior leikmönnum og þjálfurum. Á æfingunni fór Neven Cegnar yfir fjölmargar spilaæfingar, kúluæfingar, þrek og snerpuæfingar. Gerði BTÍ myndband af æfingunni sem er að finna á Youtube rás BTÍ, sjá hér að neðan.
Námskeiðið var frábært og fengur að leiðsögn afburða alþjóðlegs þjálfara fyrir þjálfara hér á Íslandi. Mun BTÍ halda sínu striki varðandi eflingu þjálfaramenntunar á Íslandi enda lykill að betri árangri afreksmanna og kvenna okkar. Þakkar BTÍ samvinnu borðtennisdeilda HK og BH við verkefnið.
II