Þjóðverjar sigursælir á EM í einstaklingskeppni
Evrópumeistaramótið í einstaklingskeppni fór fram 22.-27. júní og var keppt í Varsjá í Póllandi. Þetta mót átti að fara fram árið 2020.
Timo Boll, Þýskalandi, varð Evrópumeistari í einliðaleik karla í 8. skipti en hann lagði liðsfélaga sinn, Dimitrij Ovtcharov 4-1 í úrslitaleiknum.
Petrissa Solja, Þýskalandi, varð Evrópumeistari í einliðaleik kvenna í fyrsta skipti. Eins og hjá körlunum var alþýskur úrslitaleikur, því Solja vann Xiaona Shan 4-1 í úrslitum.
Þær Petrissa Solja og Xiaona Shan léku saman í tvíliðaleik og sigruðu Þjóðverjana Ninu Mittelham og Sabine Winter 3-2 í úrslitum. Petrissa Solja varð því tvöfaldur Evrópumeistari.
Evrópumeistarar í tvíliðaleik karla urðu Rússarnir Lev Katsman og Maksim Grebnev eftir 3-1 sigur á Jakub Dyjas frá Póllandi og Cédric Nuytinck frá Belgíu.
Þýskaland tók einnig gullið í tvenndarleik en það voru Qiu Dang og Nina Mittelham sem sigruðu Lubomir Pistej og Barböru Balazovu frá Slóvakíu 3-0 í úrslitunum.
Forsíðumyndin af tvöföldum Evrópumeistara Petrissu Solja, tekin af vef ETTU.