Þrír sigrar í einstaklingsleikjum á EM unglinga
Keppni í einstaklingsgreinum hófst á EM unglinga í Malmö þann 17. júlí. Leikið er í riðlum í einliðaleik en í tvíliðaleik og tvenndarleik er keppt með útsláttarfyrirkomulagi. Þrír sigrar unnust á þessum fyrsta degi.
Sól Kristínardóttir Mixa hóf keppni á mótinu með sigri í tvenndarleik, þar sem hún lék með Matthíasi Þór Sandholt. Þau lögðu par frá Serbíu 11-8 í oddalotu. Næst mættu þau blönduðu pari frá Hollandi og Moldóvu og töpuðu 1-3, en sá leikur var í 128 para úrslitum.
Helena Árnadóttir keppir í riðli 17 í flokki meyja 15 ára og yngri. Hún vann stúlku frá Montenegro 3-1 en tapaði fyrir sænskri stúlku.
Benedikt Aron Jóhannsson keppir í riðli 40 í drengjaflokki. Hann lagði leikmann frá Kýpur 3-2 og tapaði fyrir leikmanni frá Svíþjóð.
Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir er í riðli 12 í flokki meyja 15 ára og yngri. Hún tapaði 1-3 fyrir leikmanni frá Austurríki og fyrir leikmanni frá Ítalíu.
Sól leikur í riðli 28 í stúlknaflokki og tapaði fyrir stúlku frá Danmörku og annarri frá Wales.
Matthias Þór Sandholt dróst í riðil 29 í drengjaflokki og tapaði fyrir leikmanni frá Eistlandi.
Alexander Ivanov leikur í riðli 39 í drengjaflokki og tapaði fyrir leikmönnum frá Búlgaríu og Serbíu.
Eiríkur Logi Gunnarsson dróst í riðil 21 í drengjaflokki og tapaði fyrir dreng frá Belgíu.
Benedikt Jiyao Davíðsson leikur í riðli 21 í flokki sveina 15 ára og yngri. Hann tapaði fyrir leikmanni frá Tyrklandi.
Kristján Ágúst Ármann er í riðli 15 í flokki sveina 15 ára og yngri og tapaði fyrir pilti frá Belgíu.
Lúkas André Ólason leikur í riðli 27 í flokki sveina 15 ára og yngri. Hann tapaði fyrir leikmanni frá Ungverjalandi.
Lúkas og Helena léku saman í tvenndarleik í kadettflokki og töpuðu fyrir pari frá Serbíu.
Kristján og Guðbjörg Vala töpuðu fyrir pari frá Lettlandi í þremur jöfnum lotum í tvenndarleik í kadettflokki.
Þann 18. júlí heldur keppni í riðlum í einliðaleik áfram og eru sumir íslensku leikmennirnir í þriggja manna riðlum en aðrir í fjögurra manna riðlum. Einnig verður spilað í tvíliðaleik.
Myndir frá Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur.