Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Tillögur að breytingum á lögum Borðtennissambandsins til afgreiðslu á borðtennisþingi 2. apríl

Borðtennissambandinu bárust engar utanað komandi tillögur að lagabreytingum en stjórn BTÍ leggur fram tvær tillögur um breytingar á lögum sambandsins.

Annarsvegar er það tillaga um að halda borðtennisþing árlega en ekki annað hvert ár eins og verið hefur og hins vegar að leyfa félögum utan höfuðborgarsvæðisins að taka fullan þátt í borðtennisþingi í gegn um fjarfundarbúnað.

Auk þess óskar stjórn BTÍ eftir því að borðtennisþing staðfesti siðareglur BTÍ og hegðunarviðmið BTÍ sem samþykkt voru í stjórn á haustmánuðum 2021.

Borðtennisþing á hverju ári

Stjórn BTÍ leggur til þær breytingar að Borðtennisþing verði haldið árlega og kosið um formann annað hvert ár og svo kosið um tvo stjórnarmenn á hverju ári. Þetta er lagt fram til þess að fá meiri samfellu í störf stjórnar og til að tryggja að einhver reynsla á stjórnarsetu haldist í stjórninni.

Til þess að ná þessu fram þarf að gera breytingar á 5. grein og 9. grein laga Borðtennissambandsins 

5 gr. – Borðtennnisþing

Fyrsta setning annarrar málsgreinar verði breytt úr:

Þingið skal haldið annað hvert ár á tímabilinu 1. apríl til 1. júní.

og verður svohljóðandi

Þingið skal haldið á hverju ári á tímabilinu 1. apríl til 1. júní.

9. gr. Stjórn BTÍ

9 grein verði breytt úr::

Stjórn BTÍ skipa 5 manns, þ.e. formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Fyrst skal kosinn formaður til tveggja ára í senn. Síðan fjóra stjórnarmeðlimi til tveggja ára í senn. Stjórnin skal skipta með sér verkum. Aðsetur stjórnarinnar er í Reykjavík. Reikningsár BTÍ miðast við almanaksárið. Einnig skal kjósa 3 menn í varastjórn og taka þeir sæti, ef aðalmaður forfallast og koma þeir inn í sömu röð og þeir eru kosnir.

og verður svohljóðandi

Stjórn BTÍ skipa 5 manns, þ.e. formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Annað hvert ár skal kosinn formaður til tveggja ára í senn. Á því þingi þar sem formannskjör fer fram er kosið um tvo stjórnarmenn og tvo varamenn til tveggja ára. Árið eftir er kosið um tvo stjórnarmenn og einn varamann til tveggja ára. Stjórnin skal skipta með sér verkum. Aðsetur stjórnarinnar er í Reykjavík. Reikningsár BTÍ miðast við almanaksárið. Varamenn taka sæti, ef aðalmaður forfallast og koma þeir inn í sömu röð og þeir eru kosnir.

Bráðbirgðaákvæði á þingi 2022 vegna breytinga á 9.grein. Ákvæðið falli niður að þinginu loknu.

Til þess að fylla 5 manna stjórn á þessu þingi er lagt til að þeir tveir stjórnarmenn sem flest atkvæði fá verði kjörnir til tveggja ára en þeir tveir sem færri atkvæði fá verði kosnir til eins árs og verði svo kosið um þau sæti að ári.

Sömuleiðis er lagt til að þeir tveir varamenn sem flest atkvæði fá verði kjörnir til tveggja ára en sá sem fæst atkvæði fær verður kjörin til eins árs.”

Þátttaka á borðtennisþing í gegnum fjarfundarbúnað

Í ljósi reynslu undangenginna mánaða hvað varðar COVID og fjarfundi almennt þykir stjórn BTÍ rétt að opna á þátttöku félaga utan höfuðborgarsvæðisins í gegnum fjarfundarbúnað. Borðtennisþing hafa verið haldin á höfuðborgarsvæðinu og það er íþyngjandi fyrir félög utan þess svæðis að geta ekki tekið fullan þátt í þingum án þess að koma á staðinn.

Fyrir aftan síðustu málsgrein 6. gr. – Um fulltrúa aðildarfélaga á borðtennisþingi bætist við

Fulltrúum félaga utan höfuðborgarsvæðisins er heimilt að tengjast fundinum í gegnum fjarfundarbúnað og fara með atkvæði sín í gegnum fjarfundarbúnað, enda hafi slíkt verið auglýst með fundarboði”

Staðfesting á Siðareglum og hegðunar viðmiðum

Stjórn BTÍ leggur fram Siðareglur BTÍ og Hegðunarviðmið BTÍ sem samþykkt voru í stjórn á haustmánuðum 2021 og óskar stjórn eftir því að borðtennisþing staðfesti þessar reglur og viðmið.

Siðareglur: https://bordtennis.is/wp-content/uploads/2021/08/Si%C3%B0areglur-BT%C3%8D-1.pdf

Hegðunarviðmið: https://bordtennis.is/wp-content/uploads/2021/08/Heg%C3%B0unarvi%C3%B0mi%C3%B0-BT%C3%8D-1.pdf

Aðrar fréttir