Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Töp hjá íslensku karlaliðunum í liðakeppni á Finlandia open

Íslensku karlarnir hófu keppni á Finlandia open með keppni í liðakeppni. Keppt var í tveggja manna liðum, þar sem voru leiknir tveir einliðaleikir og tvíliðaleikur til úrslita, ef staðan var 1-1 að loknum einliðaleikjum. Bæði liðin töpuðu 0-2.

Ingi Darvis Rodriquz og Magnús Gauti Úlfarsson skipuðu liðið Ísland-1, sem lék við lið Eistlands. Ingi tapaði 0-3 (2-11, 5-11, 3-11) fyrir Vallot Vainula og Magnús Gauti tapaði 0-3 (6-11, 3-11, 2-11) fyrir Lauri Laane.

Birgir Ívarsson og Magnús Jóhann Hjartarson léku sem Ísland-2 og mættu þeir Rússlandi-2. Magnús tapaði 0-3 (3-11, 7-11, 4-11) fyrir Ivan Nikulin og Birgir tapaði 0-3 (4-11, 3-11, 4-11) fyrir Artem Dvoinikov.

Japanir sigruðu tvöfalt bæði í liðakeppni karla og í liðakeppni kvenna.

Í dag var dregið í einliðaleik og hefst einliðaleikurinn föstudaginn 8. desember. Birgir mætir Fabio Rakotoarimanana frá Frakklandi í 1. umferð, Ingi leikur við Muhammad Abdulwahhab frá Katar, Magnús Jóhann keppir við Artem Dvoinikov frá Rússlandi og Magnús Gauti við Matthew Leete frá Englandi. Leikið er um einstök sæti, svo strákarnir fá marga leiki á mótinu.

Á vef finnska borðtennissambandsins er hægt að horfa á beina útsendingu frá mótinu á slóðinni http://www.sptl.fi/sptl_uudet/?p=9273

Á forsíðumyndinni má sjá Inga á Norður-Evrópumótinu sl. sumar.

 

ÁMU

Aðrar fréttir